148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

framlagning stjórnarmála.

[11:33]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Forseti. Mig langaði bara að vekja athygli á því að þegar þessi mikilvæga umræða fer fram um störf þingsins láta ráðherrarnir sig hverfa úr salnum. Það er verið að ræða skort á málum frá ráðherrunum og þau eru ekki að hlusta. Jú, hérna sé ég hæstv. ferðamálaráðherra Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur í hliðarsal, en það breytir því ekki að þau sátu hérna fjölmörg áðan og eru horfin. Þau ættu einmitt að vera hér og ræða við þingmenn um skortinn á málunum í þinginu. Vonandi eru þau kannski einhvers staðar að vinna að þingmálum sínum af því að ekki eru þau komin inn á þingið.

Annað, herra forseti, sem ég verð að gera athugasemdir við er ítrekaður hávaði úr hliðarsölum. Ég óska eftir því að hæstv. forseti geri eitthvað í því, við sem sitjum við dyrnar höfum ekki undan að sussa, m.a. á hæstv. ráðherra. Ég óska eftir því að forseti taki á þessu þó að það sé þögn í augnablikinu.