148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

framlagning stjórnarmála.

[11:36]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með fleiri þingmönnum um verkleysi ríkisstjórnarinnar, en eins og kom fram í síðustu viku þegar við vorum að ræða þessi mál, var ég á sömu skoðun með það að samsetning ríkisstjórnarinnar er partur af þessum vandræðum. Eins og síðasti ræðumaður kom inn á stendur sennilega eitthvað í fólki í ríkisstjórninni inni í ráðuneytunum.

Mig langar að spyrja þingheim að einu: Hefur enginn áhyggjur af fréttum gærdagsins um hugsanlega arðgreiðslu út úr Arion banka upp á 80 milljarða? Mér finnst þögnin æpandi um það mál og þessar fréttir. Við erum að tala um 80 milljarða, andvirði eins þjóðarsjúkrahúss, hvorki meira né minna.