148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

framlagning stjórnarmála.

[11:39]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mér þætti nú skemmtilegra ef hæstv. forsætisráðherra væri hér inni til þess að hlýða á mál mitt. En ég ætla þá bara að biðja virðulegan forseta um að koma þeim skilaboðum áleiðis að alla vega finnist þeim sem hér stendur í sjálfu sér ekki eitthvert svakalegt vandamál að ríkisstjórn skili fáum málum, sér í lagi ef þau eru þá vel gerð.

Hins vegar að vil ég hafa það á hreinu að frekar en að hér verði svakalegur asi og flýtir í lok þingsins eigum við að leggja áherslu á að klára þau þingmannamál sem lögð hafa verið fram, sem nóg er af og við ættum alveg að geta klárað. En eins og var rakið áðan af hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni er hefðin sú að þau fái miklu minni forgang ef þau fá þá brautargengi yfir höfuð.

Kannski er þetta tækifæri. Kannski eigum við að nýta þennan hrósdag til að hrósa okkur fyrir að nýta tækifærið til að koma þingmannamálum að. En ég hafna því algjörlega að einhver asi og flýtir í lok þingsins verði notað sem tylliástæða fyrir því að klára ekki þingmannamál, því að Alþingi setur jú lögin í þessu landi, ekki ríkisstjórnin.