148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

framlagning stjórnarmála.

[11:41]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Í næstu viku erum við hálfnuð með þann fjölda þingfundadaga sem við höfum á vormisseri og sárafá mál ríkisstjórnarinnar hafa komið fram. 140 voru þau talsins alls á þingmálaskrá ríkisstjórnar. Ég held að það sé orðið tímabært að menn setjist niður af alvöru og endurskoði hvort tveggja. Það væri ágætt að fá ráðherra hér fyrir þingið til að útskýra þetta og ég tek undir orð þeirra þingmanna sem segja að það væri ágætt að hafa þá hér til að fara yfir það hvaða mál þeir ætla raunverulega að leggja fram. Það væri ágætt að ríkisstjórnin endurskoðaði þingmálaskrá sína því að það er alveg augljóst að þessi mál munu ekki öll koma fram hér á síðustu dögum.

Ég ítreka enn og aftur að ég held að það gefi augaleið að við þurfum að endurskoða starfsáætlun þingsins á vormisserinu. Það er stutt í langt páskaleyfi þingsins og ekki mjög langt í sveitarstjórnarkosningar þar sem þingið verður aftur sent heim. Það er alveg augljóst að okkur er mjög þröngur stakkur sniðinn (Forseti hringir.) til að geta sinnt skyldu okkar um að vanda til málsmeðferðar þeirra mála sem koma þó vonandi á endanum fram af hálfu ríkisstjórnarinnar.