148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

framlagning stjórnarmála.

[11:45]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að taka svona vel í óskir um þögn í hliðarsölum sem er verulega pirrandi þegar maður situr upp við dyrnar.

Ég ætlaði að ræða málafæð frá ríkisstjórninni. Ég skil það auðvitað að það tekur nýmyndaða ríkisstjórn tíma að stilla saman strengi sína og leggja fram stóru málin, en það er auðvitað kominn talsverður tími síðan hún var mynduð, rúmir þrír mánuðir, og við bíðum eftir stóru málunum. Svo veltir maður fyrir sér af hverju hún haldi að sér höndum. Það er mikið af fríum fram undan, það er páskafrí, það eru kosningar o.fl., svo maður spyr: Hvenær á að leggja mál fram? Á að leggja þau fram alveg í blálokin þannig að mönnum gefist ekki tími til að ræða þau með fullnægjandi hætti á Alþingi? Eru ástæðurnar kannski komandi kosningar? Ég ætla að benda hérna sterklega á, fyrst ég er kominn hingað upp í stól, að ég bíð spenntur (Forseti hringir.) eftir nýrri samgönguáætlun. Það er ekki boðlegt að hún sé ekki lögð fram og á mælikvarða almannavarna, sem ég starfaði lengi við, er ástandið í samgöngumálum og vegamálum rautt.