148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

framlagning stjórnarmála.

[11:46]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir gerði að umtalsefni virðingu Alþingis og að það væri ekki góður siður að tala niður störf Alþingis og mikilvæg störf í nefndum. Ég tek undir það. Þó að það hafi nú ekki verið mörg ríkisstjórnarmál hér þá höfum við átt ágætisumræður um mörg þörf og góð þingmannamál í þeim nefndum sem ég sit í, þannig að ég tek undir það.

Ég hlýt lýsa áhyggjum mínum yfir því hvað verður um virðingu og vönduð vinnubrögð þegar málastafli ríkisstjórnarinnar hendist inn í nefndirnar. Hvað má þá segja um virðingu Alþingis þegar farið verður að afgreiða mál, væntanlega undir miklu þrýstingi frá hv. ríkisstjórn, úr nefndum og í þinginu? Hefur hv. þingmaður engar áhyggjur af því að þá gæti fallið smá kusk á flibba okkar þingmanna fyrir óvönduð vinnubrögð?