148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

framlagning stjórnarmála.

[11:49]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég kem bara hérna upp til að skapa aðeins meiri ró. [Hlátur í þingsal.] Mér finnst mjög gaman að hlusta á hv. þingmenn, sérstaklega stjórnarandstöðuþingmenn sem hafa lagt sig sérstaklega fram til að auka virðingu og traust til þingsins og tala allt hér niður. Málin eru léleg og ónýt. Og svo eru skemmtilegar þversagnir í þessu líka, sérstaklega hjá hv. þingmönnum Pírata, sem þurfa að hafa málin svo lengi í þinginu áður en hægt er að taka afstöðu. Það er ekki einu sinni hægt að taka afstöðu eftir langa meðferð, en þeir krefjast þess að ríkisstjórnin komi hér inn með mál strax og fljótt. (Gripið fram í.) Þá þarf engan undirbúning og þá þarf ekkert að skoða málin. [Háreysti í þingsal.] Þá þarf allt að gerast strax. (Gripið fram í: Það er engin þversögn, vinur.) Það er mikil þversögn í þessu. Leyfum bara hæstv. ríkisstjórn að vanda til verka og koma með góð frumvörp, þá þurfa Píratar kannski ekki eins langan tíma (Forseti hringir.) til að taka afstöðu eins og venjulega. (JÞÓ: Ekki koma með þau seint …)

(Forseti (SJS): Ró í salnum. Það var ósk hv. þingmanns að skapa ró í salnum.)