148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

framlagning stjórnarmála.

[11:52]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Nú ber svo við að forseti hefur ekki fleiri á skrá sinni sem óska eftir að ræða fundarstjórn forseta. Stemmir það að enginn sitji óbættur hjá garði í þeim efnum án þess að forseti sé að auglýsa sérstaklega eftir fleirum? Hér hefur orðið lífleg umræða og hafa allmargir þingmenn, einir 13 talsins, nýtt í tvígang rétt sinn til að ræða fundarstjórn forseta. Forseti vill á degi hróssins hrósa mönnum fyrir hugkvæmni við að fylla út í fundartíma Alþingis, jafnvel þótt hér séu fá mál á dagskrá.

En að gamni slepptu tekur forseti að mörgu leyti undir þau sjónarmið sem hér hafa verið fram færð, að það er afar óheppilegt ef mál safnast upp og koma seint fram. Reyndir þingmenn vita hvað það þýðir.

Á hinn bóginn er á það að líta að mjög keimlík umræða fór hér fram síðastliðinn vetur, enda háttaði þá eins til að ríkisstjórn kom til valda á miðjum vetri. Það markar að sjálfsögðu að einhverju leyti það ástand sem við nú ræðum. (Gripið fram í.)

Forseti vill upplýsa að hann hefur verið í sambandi við forsætisráðherra og ríkisstjórn um þessi mál og skrifaði forsætisráðherra bréf fyrir hönd ríkisstjórnar í síðustu viku þar sem vakin var athygli á ákveðnum þáttum í samskiptum framkvæmdarvalds og löggjafarvalds sem betur mættu fara. Það er í undirbúningi að betrumbæta samskiptareglur þannig að boðleiðir verði styttri bæði af hálfu þingsins og framkvæmdarvaldsins þegar kemur að því að áætla þingstörfin með einhverri vitneskju um það sem í vændum er frá ríkisstjórn og öfugt. Að Alþingi sendi ríkisstjórn jafnan lista yfir t.d. þær beiðnir um sérstakar umræður sem fyrir liggja, og fleira mætti nefna í þeim dúr.

Forseti vill líka upplýsa að hann mun boða formenn fastanefnda á sinn fund á þriðjudaginn kemur til að fara yfir stöðu mála með þeim. Að sjálfsögðu er það rétt sem hér var nefnt að það skiptir líka máli að mál komi úr nefndum og safnist ekki þar upp og bætist þá við það sem fram undan er.

Að síðustu er ég sammála því sjónarmiði að æskilegt væri að sem fyrst kæmi frá hæstv. ríkisstjórn endurskoðuð þingmálaskrá, því að augljóst er að hún mun taka breytingum.

Ég tel hafa verið fulla innstæðu fyrir því sem hér hefur verið rætt í hartnær klukkutíma, en ég vil þó skjóta skildi fyrir gagnrýni á að ráðherrar skyldu ekki sitja hér undir umræðunni. Þetta var ekki umræða um störf þingsins, þetta var umræða um fundarstjórn forseta. Á undan henni var óundirbúinn fyrirspurnatíma þar sem ráðherrar voru til svara, þar á meðal hæstv. forsætisráðherra. Þingmönnum hefði verið í lófa lagið að beina fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra um þetta mál á meðan hún var til svara í salnum.

Verður þá ekki meira um þetta sagt og tekið fyrir annað mál á dagskrá.