148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

ábendingar í rannsóknarskýrslum Alþingis.

78. mál
[12:02]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég verð líka eiginlega að lýsa furðu minni á ummælum hæstv. fjármálaráðherra. Ég trúi því ekki að stjórnsýslan hafi ekki tekið saman eitthvert yfirlit um þær ábendingar sem til hennar var beint í skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Til hvers var þá starfið unnið ef stjórnsýslan hefur öllum þessum árum síðar ekki einu sinni komist svo langt að taka saman hvaða ábendingum var beint til hennar, hvað þá að gera einhverja bragarbót þar á eða fylgja því eftir hvernig úr þeim ábendingum væri unnið? Ég get ekki ímyndað mér að þessi skýrslubeiðni hvað þennan þáttinn varðar feli í sér einhverja viðbótarvinnu fyrir stjórnsýsluna. Hún hlýtur fyrir löngu síðan að vera búin að taka saman þær ábendingar sem til hennar var beint. Ég vona svo sannarlega að þar hafi líka eitthvað verið gert í að vinna eftir þeim. Mér finnst þetta mjög eðlileg og góð skýrslubeiðni og sjálfsagt einmitt að þingið fylgi henni eftir. Hér var fjöldi athugasemda og ábendinga settur fram um hvað hefur verið gert.