148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

ábendingar í rannsóknarskýrslum Alþingis.

78. mál
[12:03]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Bara í ljósi þess sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra nefndi hérna, þeirrar almennu athugasemdar, væri svo sem í sjálfu sér hægt að taka undir hana ef um væri að ræða einfaldlega það að taka eitthvað úr þeim skýrslum sem þegar hafa verið lagðar fram. En það er ekki þannig. Skýrslubeiðnin fjallar ekki um það að taka útdrátt úr þeim skýrslum sem þegar hafa verið lagðar fram heldur einnig hvernig hafi verið brugðist við ábendingum í 3. lið og hvaða ábendingum hafi ekki enn verið brugðist við, hvernig tryggt hafi verið að þeim hafi verið fylgt eftir, hver hafi verið tilnefndur ábyrgðaraðili og hvernig ráðherra hyggist fylgja eftir ábendingum þar sem ekki hefur verið tilnefndur ábyrgðaraðili. Þetta er það sem skýrslubeiðnin fjallar um, ekki það að draga saman einhvern útdrátt úr þessu níu binda verki sem var gefið út á sínum tíma.

Ég vil bara halda því til haga að þessi skýrslubeiðni snýst ekki um það. Hún snýst um að fylgja verkinu eftir. Ég myndi halda að það væri Alþingi sem ætti einmitt að leggja til við forsætisráðherra að upplýsa þingið og almenning um málið.