148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

ábendingar í rannsóknarskýrslum Alþingis.

78. mál
[12:11]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mér finnst ég vera að upplifa að einhverju leyti endurtekið efni þegar ég hlusta á þessar umræður. Umræðan minnir mig dálítið á það þegar Sjálfstæðismenn þyrptust á dögunum í ræðustól til að gera athugasemdir við orðalag hv. þm. Þórhildar Sunnu í sjónvarpsþætti þar sem hún talaði um rökstuddan grun og þeir fjölluðu allir um orðalagið sjálft. Þeir töluðu ekki um anda þess sem hún var að segja, inntak þess sem hún sagði heldur einbeittu þeir sér að því að tala um orðalagið sjálft og réðust á það.

Mér finnst gæta útúrsnúnings í máli hæstv. fjármálaráðherra þegar hann talar um að því sé beint til framkvæmdarvaldsins að það gefi upplýsingar um hvaða ábendingar sé að finna. Það er að sjálfsögðu ekki það sem er verið að fara hér fram á heldur hitt, að framkvæmdarvaldið gefi þinginu, löggjafarvaldinu, skýrslu um það hvað hefur verið gert (Forseti hringir.) í að bregðast við þessu níu binda verki skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.