148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

um fundarstjórn.

[12:15]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Nú ætla ég að tala raunverulega um fundarstjórn forseta. Ég var býsna hugsi áðan. Ég átta mig á því að það er ekki mitt að segja forseta fyrir verkum eða leiðbeina honum, en ég ætla að nýta mér þann rétt að segja það sem ég vil í ræðustól.

Ég geri athugasemdir við að mér finnst forseti oft og iðulega vera gildishlaðinn í orðum sínum þegar hann talar um að við séum að fylla út í dagskrá Alþingis — segir það auðvitað á gamansaman hátt en í því felast ákveðin skilaboð. Fundarstjórn forseta er fastur dagskrárliður sem skiptir máli til þess að varpa ljósi á störf þingsins.

Í öðru lagi er það heldur ekki hlutverk herra forseta að vera einhvers konar upplýsingaráðgjafi ríkisstjórnarinnar og útskýra af hverju þau eru ekki á staðnum. Það vill svo til að frá mínu sjónarhorni blasti hæstv. forsætisráðherra við fyrir utan á spjalli við þingmann. Það getur vel verið að hún hafi haft mikilvægara erindi að sinna þar en inni í þingsal, en mér finnst að herra forseti (Forseti hringir.) eigi að velta þessu fyrir sér. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)