148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[12:26]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég er stuðningsmaður þess nauðsynlega frumvarps sem fjallar um umskurð drengja. Það á ekki að vera leyfilegt að skaða börn fyrir lífstíð út af einhverju fyrirbrigði sem ekkert hefur með læknisfræðilega hluti að gera. Ég hef verið að hugsa hvers vegna í ósköpunum við leyfum að ráðist sé á börn og þau limlest fyrir lífstíð í nafni trúar. Ég tel ekki það komi trú við á nokkurn hátt að ganga að sjö daga gömlu barni og fremja þessa viðurstyggilegu gjörð, sem ég kalla svo, meira að segja án deyfingar. Lýsingarnar á því hvernig farið er að því eru skuggalegar. Ég hef hlustað og horft á hvernig það er framkvæmt.

Ég hef farið í margar aðgerðir um ævina. Það fer enginn, ekki nokkur maður trúi ég, í aðgerð nema hann sé alvarlega veikur. Enginn gerir það að gamni sínu, enginn að óþörfu. Ég fór allt í einu að spá í hversu langt maður man aftur í tímann. Hver er fyrsta minningin? Jú, mín fyrsta minning tengist einmitt sársauka. Mín fyrsta minning er að ég var á leið á sjúkrahús. Þar var sett yfir mig gríma, þetta var á þeim tíma þegar börn voru svæfð með eter, eða ég veit ekki hvaða efni var hellt yfir. Og ég var svæfður. Sennilega hef ég verið í kringum þriggja ára gamall. Ég man alltaf skelfinguna þegar gríman kom yfir mig og ég barðist um á hæl og hnakka. En tilgangurinn með þessari svæfingu var að það þurfti að taka úr mér kirtlana. Ég hafði verið mikið veikur lengi. Þetta var nauðsynleg aðgerð til að lækna veikindi mín. Og hún virkaði.

Síðan fór ég að hugsa um að það næsta sem ég myndi hlyti að vera eitthvað ánægjulegt. Næsta minning var að mörgu leyti ánægjuleg, það var þegar ég var að leika við besta vin minn og hann tók steypustyrktarjárn og negldi því í hausinn á mér. Blóð út um allt. Ég var skelfingu lostinn. Það er næsta minning. Sársauki. Og sársaukinn virðist bíta inn í sál barnanna.

Ég hef fengið ótrúlega marga tölvupósta um þessi mál og alla jákvæða. Fólk styður að frumvarp þetta verði samþykkt. Ég segi fyrir mitt leyti eftir lestur þessara tölvupósta og af reynslu minni af aðgerðum þá á ekki, ekki í neinum tilfellum, að ráðast á sjö daga gamalt barn, barn sem búið er að ganga í gegnum fæðingu viku áður. Ég segi barn vegna þess að það breytir engu máli hvort það er stúlka eða drengur. Mér er sagt að þar sem drengir séu umskornir í gyðingdómi verði búið að útiloka gyðingdóm ef banna eigi umskurð. Hvar erum við þá stödd? Þúsund árum fyrir Krist eða árið 2018? Höfum við ekkert þróast? Ég segi: Það hlýtur að vera krafa þegar við erum komin inn á þessa öld og höfum alla þessa þekkingu um hvað þarf að gera og hvað ekki, hvaða aðgerðir eru nauðsynlegar og hverjar ekki, að við stöldrum við og segjum: Hingað og ekki lengra. Segjum bara: Nei, þetta kemur ekki til greina. Barnasáttmálinn, mannréttindasáttmálinn, allt segir: Við stoppum þessa hluti.

Þetta á að vera svo sjálfsagt að það er eiginlega óskiljanlegt hversu mikla athygli þetta mál hefur vakið. Það er á engan hátt hægt að réttlæta það. Ekki nokkurn. Þeir sem reyna það á einhvern furðulegan hátt með skírskotun í trúarbrögðin. Í því tilfelli fer maður að hugsa út í trúarbrögð. Kristindómur segir að guð hafi skapað manninn í sinni mynd. En hvaða rétt höfum við þá til að breyta þeirri mynd? Hvaða rétt höfum við til að segja: Þarna er sjö daga gamalt barn, það er ekki fullkomið, við ætlum að breyta því í okkar mynd. En það var fullkomið í mynd þess guðs sem á að hafa það skapað í sinni mynd. Við erum komin í andstöðu við okkur sjálf ef við ætlum að fara að leika guð. Sagt er að í sumum tilfellum þurfi svona aðgerð, en í 99,9% tilfella þarf þess ekki, myndi ég telja.

Að framkvæma svona aðgerð án deyfingar og með þeim aðferðum sem ég hef lesið um segir mér að við verðum að stöðva þetta og sjá til þess að það séu alltaf börnin sem njóti vafans.

Íslenskir hjúkrunarfræðingar og ljósmæður hafa lýst yfir stuðningi við frumvarpið. Læknar hafa lýst yfir stuðningi við það. Enda get ég ekki ímyndað mér að það sé á nokkurn hátt í verkahring lækna að framkvæma ónauðsynlega aðgerð sem veldur þjáningum og getur valdið ólæknanlegum erfiðleikum hjá viðkomandi barni.

Samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og mannréttindasáttmálanum stenst þetta ekki. Það er ekki á neinn hátt hægt að verja þetta. Í umræðunni undanfarnar vikur hef ég ekki orðið var við neitt annað en jákvætt gagnvart þessu frumvarpi, fólk vill stöðva umskurð drengja. Einstaklingar sem lent hafa í þessu hafa sent mér tölvupóst um þetta. Þeir biðja um að þetta verði stöðvað. Komið hafa tölvupóstar frá þeim sem eru skelfingu lostnir yfir þeirri tilhugsun að nú muni þeir brátt eignast barn og þurfi að beita það ofbeldi sjö dögum eftir fæðinguna. Ég segi um trúfrelsi: Ég er alveg sáttur við trúfrelsi. Algerlega sáttur við að fólk trúi hverju sem það vill svo framarlega sem sú trú meiðir ekki neinn. Við verðum að átta okkur á því að það er ekki langt síðan við Íslendingar vorum í torfkofum, og það er ekki langt síðan við Íslendingar vorum með galdrabrennur. Við höfum sem betur fer þróast frá því. Frá mínum bæjardyrum séð erum við að taka eitt skref í þeirri þróun. Við erum að segja: Við ætlum að koma í veg fyrir að börn verði sköðuð að óþörfu.

Þess vegna segi ég: Frelsi og réttindi barna eru númer eitt, tvö og þrjú. Þegar barn verður fullorðið hefur það rétt til að láta gera svona aðgerðir ef það vill. Það er engin spurning að þetta verður alltaf og á alltaf að vera réttur barnsins, aldrei foreldranna. Réttur foreldranna á eingöngu að vera gagnvart því að hjálpa barninu.

Ég hef staðið frammi fyrir því að vera með rétt um mánaðargamalt barn, fárveikt, og geta ekkert gert. Vegna veikinda. Ef mér hefði einhvern tíma dottið í hug að framkvæma svona aðgerð á mínum drengjum — ég á nú bara drengi, sex drengi, fimm á lífi, og beita þá því ofbeldi sem svona aðgerð hefði gert, hvort sem er í nafni trúar eða einhvers annars — það hefði aldrei komið til greina.

Þess vegna segi ég: Að taka heilbrigt barn sem ekkert er að og beita það ofbeldi er alveg óskiljanlegt.

Að lokum mun ég lesa úr grein í Kjarnanum, með leyfi forseta:

„Af öllu því sem hér hefur verið rakið má telja það ljóst að bann við umskurði barna stríðir ekki gegn trúfrelsi foreldranna. Án þess að afstaða sé tekin til líklegrar niðurstöðu Mannréttindadómstóls eða annarra dómstóla varðandi það hvort umskurður fæli í sér brot á grundvallarréttindum hins ómálga barns, þ.e. mannréttindum þess, verður að telja nokkuð öruggt að réttur barns til líkamlegrar friðhelgi, auki réttar barnsins til að taka ekki við kennisetningum trúarbragða foreldra sinna gegn eigin mótmælum, yrði talið til „réttinda og frelsis annarra“ í skilningi 2. mgr. 9. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og sambærilegra ákvæða laga og alþjóðasamninga.“

Þess vegna segi ég, og ég meina það og tala af reynslu, af því að þetta er skelfileg framkvæmd: Ég bið þingheim um að samþykkja þetta bann og bið fólk að styðja það að við sýnum þann manndóm og réttlæti gagnvart vikugömlum börnum að við gefum þeim allan þann rétt sem þau eiga, að séð verði til þess að aldrei verði framkvæmt neitt á börnunum sem veldur þeim skaða, þau njóti alls réttar. Þegar þau verða fullorðin hafa þau þetta val.