148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[12:44]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Við erum hér að fjalla um frumvarp um bann við umskurði drengja. Samkvæmt frumvarpinu, verði það að lögum, mun það verða refsivert og sæta fangelsisvist allt að sex árum að framkvæma slíka aðgerð á Íslandi.

Frumvarpið hefur fengið töluverða athygli og er fordæmt víða erlendis frá. Ég er ekki fylgjandi þessu frumvarpi. Ég vil hins vegar taka það fram að ég er ekki sérstakur talsmaður umskurðar. Ég er hins vegar á móti því að gera umskurð refsiverðan samkvæmt hegningarlögum. Ég mun fara nánar út í það hér á eftir. Ég er auk þess með nokkrar spurningar varðandi málið til hv. þingmanns og flutningsmanns, Silju Daggar Gunnarsdóttur, og koma þær jafnóðum og ég flyt mál mitt hér.

Í greinargerð með frumvarpinu er rætt nokkuð um umskurð kvenna og fjallar rúmlega einn fjórði greinargerðarinnar um umskurð kvenna. Umskurður kvenna eða stúlkna er fordæmdur af þorra mannkyns og á ekkert skylt við þessa umræðu, hvorki hugmyndafræðilega né læknisfræðilega. Kemur mér það á óvart að rætt skuli um umskurð kvenna í þessu samhengi og er ég þeirrar skoðunar að með því sé verið að afvegaleiða umræðuna. Í greinargerðinni er einnig vísað til barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og það fullyrt að umskurður drengja brjóti í bága við sáttmálann. Hér fer hv. þingmaður mjög frjálslega í túlkun sinni á barnasáttmálanum að mínum dómi.

Það er alveg ljóst að barnasáttmálinn hefði aldrei fengið brautargengi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna ef hann bryti í bága við trúarhefð sem hefur verið iðkuð í þúsundir ára af milljónum manna og stærstu trúarbrögðum heims.

Það má hins vegar velta því fyrir sér hvort bann við umskurði drengja gangi ekki gegn alþjóðlegum markmiðum fjölmenningar sem koma fram í þróunarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og við erum aðilar að, en þar segir, með leyfi forseta:

„Við skuldbindum okkur til að hlúa að þvermenningarlegum skilningi, umburðarlyndi, gagnkvæmri virðingu og siðferði sem byggir á vitund um hnattrænan þegnskap og deilda ábyrgð. Við viðurkennum náttúrulegan og menningarlegan fjölbreytileika heimsins og sjáum að allir menningarheimar geti stuðlað að og eru hver um sig ómissandi við að raungera sjálfbæra þróun.“

Biskup Íslands og þjóðkirkjan taka í sama streng og eru andsnúin frumvarpinu. Segir biskup m.a. í umsögn sinni um frumvarpið að þjóðkirkjan beri virðingu fyrir siðum og venjum annarra trú- og lífsskoðunarfélaga.

Hv. þingmaður segir hér í flutningsræðu sinni að hún hafi fengið fjölda bréfa frá ísraelskum gyðingum sem styðji frumvarpið og í Ísrael sé ört vaxandi hreyfing gegn því að limlesta unga drengi í nafni trúarinnar. Um þetta vil ég segja:

Í fyrsta lagi er orðanotkun hv. þingmanns óviðeigandi. Orðið „limlesting“ samkvæmt íslenskri orðabók þýðir að stórskadda eða beinbrjóta. Ég held að allir geti verið sammála um það að umskurður er ekki stórsköddun, hvað þá beinbrot. Að nota orðalag af þessu tagi sem á ekkert skylt við það sem hér er á ferðinni finnst mér ekki vönduð vinnubrögð. Ég tel það ekki vera rökstuðning í málinu að vísa til bréfa sem hv. þingmaður hefur fengið frá Ísrael.

Alþingi er þjóðþing Íslendinga. Við erum ekki stödd í Knesset, þjóðþingi Ísraels. Við höfum ekki lagasetningarvald í Ísrael. Sá sem hér stendur starfaði í Ísrael áður en hann tók sæti á Alþingi. Ég heyrði aldrei af ört vaxandi hreyfingu gegn umskurði drengja, á ég nú marga ágæta ísraelska vini. Spurði ég m.a. fyrrverandi ráðherra í Ísrael sem ég þekki persónulega um álit hans á málinu. Hann kannaðist ekki við áðurnefnda hreyfingu. Hann vildi hins vegar koma því á framfæri að það væri mjög auðvelt að líta á þetta frumvarp sem fordóma í garð gyðinga. Yrði það samþykkt gæti það haft áhrif á samskipti Íslands og Ísraels.

Í greinargerðinni er einnig rætt um sýkingarhættu af völdum umskurðar og hún talin mikil, einkum og sér í lagi þegar umskurður fer fram í heimahúsi. Svo enn sé rætt um Ísrael þá eru gyðingar, þ.e. drengir, umskornir skömmu eftir fæðingu og meiri hlutinn í heimahúsum. Hlutfall sýkingar í Ísrael er mjög lágt, eða 0,2–0,6%. Ég tel að fullyrðing um mikla sýkingarhættu sé ekki á rökum reist, enda er fullyrðingin í greinargerðinni ekki studd neinum gögnum.

Engin gögn eru til um það að umskurður drengja hafi farið fram í heimahúsum á Íslandi. Hv. þingmaður sagði í ræðu sinni að rannsóknir sem hafa sýnt fram á að umskurður sé vörn gegn kynsjúkdómum og HIV-smiti séu mjög gagnrýnisverðar, og þær séu byggðar á veikum grunni. Þetta er rangt hjá hv. þingmanni. Þvert á móti hefur umskurður reynst mjög mikilvægur í baráttunni við alnæmi í Afríku og sýnt hefur verið fram á það að umskurður dregur úr líkum á alnæmissmiti um 60%.

Árið 2011 settu Sameinuðu þjóðirnar af stað fimm ára áætlun um að hvetja til umskurðar á meðal karla í 14 ríkjum Afríku sem þáttur í mikilvægri forvörn í baráttunni við alnæmi. Fyrir þessu átaki stóðu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, sérstakur erindreki Sameinuðu þjóðanna í baráttunni gegn alnæmi, stofnun Bills og Melindu Gates og Alþjóðabankinn. Þessar stofnanir hefðu ekki hvatt til umskurðar í baráttunni við eyðni ef kostirnir væru byggðir á veikum grunni.

Danska heilbrigðismálastofnunin er á móti banni við umskurði drengja. Stofnunin telur að það sé ekki aukin sýkingarhætta vegna umskurðar ef aðgerðin er framkvæmd rétt. Þetta kom fram í umræðum um málið hjá danska ríkisútvarpinu í janúar sl.

Samtök bandarískra barnalækna eru fylgjandi umskurði drengja og segja kostina fleiri en fylgikvillana og mæla með deyfingu við aðgerðina. Bandarísku læknasamtökin eru sömu skoðunar. Árið 2014 birti sjúkrastofnunin Mayo Clinic í Bandaríkjunum niðurstöðu rannsóknar þess efnis að kostir umskurðar drengja væru mun meiri en fylgikvillarnir. Mayo Clinic er meðal þekktustu sjúkrastofnana í heimi.

Herra forseti. Hér hef ég nefnt mikilvægar alþjóðastofnanir, samtök lækna, dönsku heilbrigðismálastofnunina og þekkta heilbrigðisstofnun í Bandaríkjunum sem mæla með umskurði drengja.

Hv. þingmaður og flutningsmaður er fylgjandi því að við tökum vel á móti flóttamönnum og þar erum við sammála. Hv. þingmaður sagði hér í ræðu frá 2013 um flóttamenn, með leyfi forseta:

„Við eigum að sýna mannúð í verki og sanngirni og hjálpa fólki sem þarf að flýja ættjörð sína vegna hörmunga.“

Ég tek heils hugar undir þetta.

Meiri hluti kvótaflóttamanna sem hingað hafa komið er frá stríðshrjáðum svæðum Mið-Austurlanda þar sem íslamstrú er ríkjandi. Þegar til Íslands er komið halda þeir áfram að iðka sína trú og hefðir tengdar henni, enda ríkir trúfrelsi á Íslandi. Umskurður drengja er liður í trúarhefð íslams.

Því spyr ég hv. þingmann hvaða áhrif hún telur að bann við umskurði drengja geti haft á móttöku flóttamanna hingað til lands sem eru íslamstrúar. Telur hv. þingmaður að í banninu felist sanngirni gagnvart ríkri trúarhefð íslams, gyðingdóms og hluta kristinna manna? Er það sanngjarnt gagnvart flóttamönnum sem hingað koma og eru íslamstrúar að þegar þeir eignast dreng þá þurfi fjölskyldan að ferðast til útlanda til þess að láta umskera barnið, verði frumvarpið samþykkt? Eins og hv. þingmaður veit þá hafa þessar fjölskyldur ekki mikið á milli handanna. Múhameð spámaður var umskorinn. Múhameðstrúarmenn eru þekktir fyrir harkaleg viðbrögð telji þeir að vegið sé að trú þeirra. Þekkt eru þau miklu áhrif sem teikningar þær sem birtust í Jótlandspóstinum af Múhameð spámanni höfðu á danskt samfélag og danska hagsmuni um allan heim. Yrði frumvarpið að lögum gæti sú staða komið upp að múslimar á Íslandi stæðu frammi fyrir allt að sex ára fangelsisdómi. Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af því að samfélag múslima um heim allan gæti risið gegn Íslandi og íslenskum hagsmunum verði frumvarpið að lögum? Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af því að hjá alþjóðastofnunum sem annast flóttamenn eins og Alþjóðaflóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna verði litið á bannið við umskurði drengja sem fordóma gagnvart íslam og hindrun í móttöku flóttamanna hingað til lands?

Hv. þingmaður sagði í blaðaviðtali fyrir skömmu í tengslum við þetta mál að viðbrögð alþjóðasamfélagsins gagnvart málinu hefðu komið henni á óvart. Það er einmitt þess vegna, herra forseti, sem ég tel að frumvarpið sé vanhugsað. Hv. þingmaður mátti vita að frumvarpið yrði fordæmt víða vegna þess að það snertir trúarhefð milljóna manna um heim allan, helgisið, sem hefur verið við lýði í þúsundir ára og engin alþjóðleg heilbrigðisstofnun hefur mælt með að banna. Með frumvarpinu er verið að gera hefð sem er trúar-, menningar- og söguleg hefð meðal milljóna manna að lögbroti og fangelsisvist allt að sex árum.

Í því samhengi vil ég nefna annan þátt í málinu sem ég tel ekki síður mikil rök fyrir því að frumvarpið verði ekki samþykkt. Ísland er lítið land og hefur þurft að berjast fyrir hagsmunum sínum á erlendum vettvangi og meira að segja þurft að fara í stríð, herlaus þjóðin.

Herra forseti. Ég tel að verði frumvarpið að lögum geti það hæglega skaðað hagsmuni Íslands á erlendri grundu. Miðað við viðbrögðin sem þegar hafa komið fram erlendis frá má telja víst að Ísland gæti lent í hringiðu fordóma sem gæti haft áhrif á utanríkisviðskipti, komu erlendra ferðamanna og ímyndar landsins út á við. Árið 2012 dæmdi dómstóll í Þýskalandi umskurð drengja ólögmætan. Málið olli miklum deilum í Þýskalandi, vakti hörð viðbrögð erlendis frá og voru þýsk stjórnvöld sökuð um fordóma gagnvart gyðingum. Til að lægja öldur setti þýska þingið lög sem heimiluðu umskurð drengja. Angela Merkel, sú merka stjórnmálakona og kanslari Þýskalands, sagði af þessu tilefni að ef Þýskaland hefði orðið fyrsta ríkið í heiminum til að banna umskurð hefði landið orðið að athlægi á alþjóðavettvangi. Hér talar reynslumikil stjórnmálakona sem virðing er borin fyrir um allan heim.

Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hún hafi ekki áhyggjur af því að frumvarpið gæti skaðað ímynd Íslands út á við verði það að lögum.

Ísland gegndi mikilvægu hlutverki í stofnun Ísraelsríkis árið 1948. Samskipti ríkjanna voru lengi vel mikil en hafa minnkað verulega á liðnum árum einkum vegna hernáms Ísraels á Palestínumönnum sem við fordæmum. Ég fullyrði þó hér að Ísraelsmenn bera mikla virðingu fyrir Íslandi og líta á okkur sem vinaþjóð. Gyðingar eru áhrifamiklir víða um heim, en bera það ekki á torg. Ef vegið er að grunngildum gyðingatrúar til þúsunda ára þar sem umskurður er ófrávíkjanleg tenging við guð og sáttmáli sem mælt er um fyrir í Gamla testamentinu og Torah, helgiriti gyðinga, er sú hætta fyrir hendi að við yrðum ekki vinaþjóð í augum gyðinga og mikilvægum viðskiptahagsmunum af ýmsum toga stefnt í hættu.

Trúarbrögð eru mikill áhrifavaldur í alþjóðasamskiptum. Flestum er í minni sá glundroði sem skapaðist hér á landi þegar Reykjavíkurborg samþykkti viðskiptabann á Ísrael. Stórar fjárfestingar í hjarta Reykjavíkurborgar voru í húfi. Borgarfulltrúar hlupu á harðahlaupum undan eigin samþykkt þegar þeir áttuðu sig á því hversu áhrifamiklir gyðingar eru í viðskiptalífinu. Málið varðar ekki bara íslamstrú og gyðingdóm, heldur kristna trú einnig, enda hafa leiðtogar kaþólsku kirkjunnar bæst í þann hóp sem hefur mótmælt frumvarpinu. Gleymum því ekki að Kristur var umskorinn og það sama á við Pál postula.

Herra forseti. Komið hefur fram í fjölmiðlum m.a. í viðtali við Þráin Rósmundsson barnalækni að umskurður barna hafi verið lagður af á Landspítalanum fyrir nokkrum árum. Umskurður virðist því ekki vera framkvæmdur hér á landi.

Því vil ég spyrja: Hvers vegna að banna og gera refsivert eitthvað sem ekki á sér stað á Íslandi en tíðkast hins vegar meðal milljóna manna um heim allan? Er þetta frumvarp þá ekki óþarft? Er ekki verið að ögra samfélögum þar sem umskurður tíðkast? Hver er tilgangurinn? Að vera fyrsta ríkið til þess að banna umskurð og gera refsiverðan sem nemur allt að sex árum í fangelsi? Það er verið að vega að trúarhefðum milljóna manna um heim allan. Það getur haft afleiðingar. Það er mjög auðvelt að álykta sem svo að í þessu frumvarpi felist fordómar, að verið sé að tala niður trúarbrögð, vegna þess að í því felst hrein og bein skírskotun til trúarlegrar hefðar sem er liður í því að fylgja vilja guðs og nauðsynlegt í trúar- og félagslegu samhengi þeirra trúarbragða sem hér hafa verið nefnd.

Sú hætta er veruleg að mínu mati að alþjóðasamfélagið líti svo á að hér sé um að ræða lagafrumvarp sem felur í sér fordóma. Það er rökstutt m.a. með því að hér er verið að banna eitthvað með lögum og gera refsivert sem ekki tíðkast á Íslandi en er hins vegar rík trúarhefð fyrir meðal milljóna manna eins og ég hef áður sagt.

Þó svo að hv. þingmaður segi það að gyðingar séu velkomnir hingað er ekki víst að gyðingar líti málið sömu augum verði frumvarp þetta að lögum. Verði frumvarpið samþykkt má segja að Alþingi, elsta þjóðþing veraldar, hafi ákveðið að tala niður, banna og glæpavæða einn helsta helgisið veraldar. Ég tel að viðbrögðin erlendis frá muni verða stærri og meiri en við gerum okkur grein fyrir. Frumvarpið hefur nú þegar náð athygli út fyrir landsteinana. Sú athygli hefur hins vegar verið neikvæð. Ísland er lítið land í samfélagi þjóðanna. Við þurfum ekki á neikvæðri athygli heimsbyggðarinnar að halda. Fyrstur getur stundum verið fól.