148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[13:01]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég vil nú segja það að mér finnst hún hafa snúið út úr orðum mínum hér áðan. (Gripið fram í.) Ég sagði ekki að ég tæki viðskiptahagsmuni fram yfir hagsmuni barna, það sagði ég ekki. Það er rangt. Ég sagði að það væri einn af áhættuþáttunum sem gætu fylgt því fyrir þjóðina að þetta frumvarp yrði samþykkt, ef Ísland yrði fyrsta ríkið í heiminum til að banna umskurð drengja.

Varðandi barnasáttmálann þá hef ég hvergi séð að þetta sé andstætt honum. Ég vil árétta það sem ég sagði hér áðan að ég er fullviss um að ef þetta væri andstætt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þá hefði hann aldrei verið samþykktur á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, það er bara ósköp einfalt. Ég held að rétt sé að halda því til haga.

Ég vil líka benda á það, og ég sagði það hér í ræðu minni, að ég er enginn sérstakur talsmaður umskurðar, en hins vegar tel ég ekki rétt að banna hann með þeim hætti að gera hann refsiverðan svo að varði fangelsisvist allt að sex árum. Ég tel einfaldlega að það geti haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir okkur sem þjóð. Þar vitnaði ég meðal annars í þekktan stjórnmálaleiðtoga í Evrópu, Angelu Merkel, sem sagði, eins og ég sagði áðan, að það gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir Þýskaland hefði Þýskaland orðið fyrsta ríkið til að samþykkja þetta.