148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[13:02]
Horfa

Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar til að lesa brot úr bréfi sem ég fékk í gær frá íslenskum karlmanni sem var umskorinn þegar hann var drengur úti í Ameríku. Hann segir, með leyfi forseta:

„Ég hef engan áhuga á að kasta mér út í þann drullupoll sem umræða um þessi mál er og þú hefur fengið að kenna á. Mér finnst fólk almennt vera dálítið mikið úti á túni og hinir raunverulegu þolendur hunsaðir með rökum um trú, menningu o.s.frv.“

Ég ætla að bæta við: „… og ferðamannastraumi“ — það er það nýjasta.

„Máltækið Hver er sinnar gæfusmiður á þannig ekki við í þessu sambandi, því við fæðingu er nútíma umskorinn Íslendingur sviptur þeim rétti að stjórna sínu eigin lífi og líkama. Það á því að banna foreldrum að taka svona ákvörðun.“

Ég hvet hv. þingmenn til að heyra í fórnarlömbum umskurðar, spyrja það fólk sem þetta hefur verið gert við hvort það sé hæstánægt með það. Ég er ekkert svo viss um að hv. þingmaður fengi hreinskilin svör frá vinum sínum úti í Ísrael, sem hann nefndi í ræðu sinni áðan, ef hann færi að spyrja nánar út í samlíf þeirra og fleira, hvernig þetta hefði haft áhrif á það. Þetta er mjög mikið feimnismál hjá karlmönnum. Karlmenn kvarta yfirleitt ekki yfir svona hlutum, þeir eru ekki vanir því, þetta er og verður feimnismál.

Ég hvet hv. þingmann til að leita sér frekari upplýsinga, bæði varðandi algengi umskurðar á Íslandi, tala við fólk sem þetta hefur verið gert við, lesa greinargerð frá Barnaheillum þar sem fullyrðingar þingmannsins hér áðan, um litið inngrip og skaðleysi, eru hraktar, m.a. HIV og ýmislegt fleira. Ég hvet þingmanninn til að kynna sér þau gögn. Ég hvet þingmanninn líka til að kynna sér og lesa vel viljayfirlýsingu talsmanna og umboðsmanna barna á Norðurlöndum, en þeir hvetja öll norræn ríki til að banna umskurð á grundvelli mannréttinda og á grundvelli þess að verið sé að brjóta barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.