148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[13:05]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil alls ekki gera lítið úr því að einstaklingar hafi haft samband við hv. þingmann og tjáð henni um erfiðleika sem þeir hafa þurft að glíma við eftir að hafa verið umskornir, ég vil alls ekki gera lítið úr því; ég hef samúð með því fólki. En ég vil hins vegar bara vísa í staðreyndir. Hv. þingmaður hamrar hér á Barnaheillum. En við getum hins vegar skoðað virtar heilbrigðisstofnanir, Alþjóðaheilbrigðisstofnunina, þekktar heilbrigðisstofnanir í Bandaríkjunum, Samtök barnalækna í Bandaríkjunum, allar þessar stofnanir telja kosti umskurðar fleiri en fylgikvillana. Þannig að ég held að það sé innlegg í umræðuna.

Hv. þingmaður virtist ýja að því að ég hefði ekki kynnt mér þessi mál nægilega vel. Það er bara rangt og það eru bara dylgjur. Ég hef kynnt mér þetta mjög vel. Þess vegna kem ég hér og tjái mig um þetta mál vegna þess að ég tel að það geti haft slæm áhrif fyrir Ísland sem þjóð að samþykkja bann með þessum hætti.

Ég sé heldur ekkert athugavert við það að landlæknisembættið setji reglur um þessa aðgerð, deyfingu og annað slíkt og að þær séu ekki gerðar í heimahúsum á Íslandi o.s.frv. En að banna þetta og dæma til refsingar til sex ára finnst mér ekki rétt aðferð í þessu máli, ég verð bara að segja það.