148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[13:10]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að frumvarp eins og þetta þurfi mikla umræðu, hún þarf að þroskast. Ég er ekki að segja hér og nú að ég sé einhver sérstakur stuðningsmaður þess, en ég er bara að velta fyrir mér rökunum í þessu. Það virðist vera þannig að þetta snúist allt um hversu lengi þetta er búið að vera. Ef þetta hefði aldrei verið og einhver myndi stofna núna trúarhóp og hefði þetta málefni þar sem algjört grunnatriði, hvað myndi hv. þm. Birgir Þórarinsson segja? Væri þetta þá í lagi? Alveg örugglega ekki. Þetta snýst því orðið svolítið um hefðina.

Nú voru margar hefðir hér og víðar í trúarbrögðum. Og af því að hv. þingmaður talaði um fordóma, það væru fordómar að menn skyldu vilja banna þetta, væri hluti af fordómum, voru það þá fordómar gagnvart múslimum þegar við settum lögin um jafna stöðu karla og kvenna? Þeir segja að slík lög um að konur eigi rétt á þessu og hinu séu algjörlega fráleit. Eigum við á Íslandi, það sem við teljum rétt og rangt, að láta það mótast af einhverjum mörg þúsund ára gömlum trúarbrögðum af því að það hefur alltaf verið svoleiðis?

Ég er ekki viss um það, en ég er samt ekki að segja það, en ég velti auðvitað fyrir mér: Er þetta frumvarp nauðsynlegt? Þetta er ekki gert hér. Eigum við ekki að láta kyrrt liggja, leyfa umræðunni að þroskast og þróast, láta þetta gerast frekar innan frá eins og allt sem gerist hjá okkur. Margt sem var hefð fyrir hjá okkur öldum saman fussum við og sveium yfir núna. Kannski þarf þetta að þróast, ég veit það ekki.

En ég er samt ekki tilbúinn að kaupa þau rök að þetta sé hefð og hluti af einhverju trúfrelsi, sem mér er nú reyndar alveg óskiljanlegt, en trúarhefð get ég skilið aðeins, og hvort við eigum ekki bara að leyfa þessu að þroskast aðeins í staðinn fyrir að koma með svona bratt frumvarp. Það getur vel verið.