148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[13:48]
Horfa

Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með þingmanninum að umburðarlyndi í samfélagi okkar er gríðarlega mikilvægt. Það að við gerum það sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir fordóma og aðra ljóta hluti. Til þess þurfum við að eiga samtal og byggja samfélagið okkar á upplýsingum, að við séum með sömu upplýsingar í höndunum þannig að við getum tekið skynsamlegar ákvarðanir sem sátt ríkir um. Þess vegna langar mig til að spyrja þingmanninn hvort hann sé ekki sammála mér um að yfirlýsingar lækna, og nú síðast hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra, um að þessir hópar séu andsnúnir því að þetta sé áfram leyft, þ.e. séu meðmælendur málsins, á grundvelli nýlegra rannsókna; að við byggjum þá ákvarðanir okkar á upplýsingum, nýjum upplýsingum, varðandi vísindi og læknisfræði, en ekki endilega 5000 ára gömlum hefðum sem fáir vita hvernig urðu til og af hverju.