148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[13:52]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef við hefðum fæðst inn í önnur trúarbrögð, og deildum hugmyndum þeirra trúarbragða, litum við væntanlega öðruvísi á málin en við gerum. Það er svo sem ekki meira um það að segja.

Foreldrar eiga ekki börnin í öðrum skilningi en þeim að þeir hafa þá skyldu að veita börnunum skjól meðan þau eru að vaxa úr grasi og hjálpa þeim að eiga gott líf. Réttindi barnsins finnst mér einmitt, eins og hv. þingmaður vék að, vera lykilatriði. Réttindi barnsins eru eiginlega það sem heila málið snýst um og ástæða þess að við erum að tala um þetta mál af slíkri alvöru. En það gerir málið í sjálfu sér ekki einfalt. Þótt það virki einfalt í augum okkar virkar það ekki endilega jafn einfalt í augum þeirra sem málið varðar, þeirra samfélaga sem það varðar.