148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[13:55]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég deili þeirri skoðun með hv. nafna mínum að þegar við komum í þennan heim séum við fullkomin og það sé engu við það að bæta nema þeim þroska sem í okkur býr.

En hér er um að ræða rótgróinn sið stórra menningarsamfélaga sem binda sjálfsmynd sína mjög sterkt og eindregið við þann sið þó að við tveir nafnar botnum ekkert í þeim sið og skiljum hann ekki, skiljum ekki hugsunina að baki honum. Það kann að vera einhver hugsun að baki þó að við skiljum hana ekki.

Ég tel að samfélag okkar eigi með einhverjum hætti að láta í ljós þann vilja sinn að þetta sé óæskilegur verknaður og að ekki eigi að stunda hann. En eins og ég hef áður sagt tel ég að við eigum að ná því fram með öðru móti en með hegningarlögum.