148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[13:58]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Ég hreinlega get ekki alveg fundið svör við þessum spurningum hv. þingmanns vegna þess að það að vera gyðingur, að vera múslimi, að vera Íslendingur er dálítið fljótandi. Þetta eru allt svo fljótandi hugtök. Jafnvel má færa fyrir því rök að það sé í raun bara spurning um ákvörðun að vera t.d. Íslendingur. Hvað felst í því að vera Íslendingur? Er hægt að vera bæði gyðingur og Íslendingur? Bæði múslimi og Íslendingur? Ég lít svo á að við búum hér í fjölmenningarsamfélagi þar sem stóra tjaldið er að vera Íslendingur, ef við erum partur af þessu samfélagi, en svo geti inni í því verið alls konar önnur þjóðarbrot með alls konar ólíka siði. Spurningin er bara hversu alvarlegum augum við (Forseti hringir.) lítum þessa siði og hvort okkur þyki ástæða til að banna þá.