148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[13:59]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, hvað eigum við að taka mikið tillit til siða annarra? Hvenær eru þessir siðir bara hreinlega, miðað við það samfélag sem við búum í í dag, úreltir, eru jafnvel til skaða, eins og hefur gerst í allri sögunni? Ég velti fyrir mér, eins og með þetta, að við sem búum í þessu samfélagi hér getum illa sætt okkur við að börn séu kvalin. Þess vegna hef ég sagt að þetta sé nú þegar refsivert. Það væri nær að við værum að eiga við frumvarp sem myndi hreinlega heimila þetta, kannski út frá þessari miklu trúarhefð.

En ég velti líka fyrir mér — ég þekki ekki mikið til gyðingdómsins — er allur sá sáttmáli sem þar er í tugum eða hundruðum greina, er það allt leyft í dag? Ég hef verulegar efasemdir um það, hef bara ekki kynnt mér það nógu vel. En þetta var samið fyrir löngu.