148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[14:05]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar aðeins að víkja að öðru. Hér hefur verið nefnt með réttu í umræðunni að íslenskir heilbrigðisstarfsmenn hafi lýst skoðunum sínum afdráttarlaust í þessu máli. Ég vil nú ekki kalla það klerkaveldi en við erum með sterkt samfélag lækna sem hafa mikið um líf okkar að segja og hvað er gert og hvað ekki. Það er vel. Þeir starfa eftir sínum prinsippum.

Það eru önnur inngrip sem hafa verið á valdsviði lækna og má kannski líkja við klerkaveldi, það er þegar verið er að gera óafturkræfar breytingar á börnum sem fæðast og eru með óljós einkenni þess hvers kyns þau eru. Læknar hafa hingað til lagt mikið upp úr því og ráðlagt foreldrum að grípa inn í til að geta flokkað börnin í réttan flokk þegar þau eldast. Þetta er líka dæmi um inngrip sem ég held að sé mikil ástæða til að við sjálf (Forseti hringir.) veltum fyrir okkur þegar við erum að tala um aðra og hvað þeir gera. Hvað höfumst við sjálf að?