148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[14:41]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru sömu spurningarnar og ég velti fyrir mér sjálfur og er ekkert alveg með 100% lausnir. Að því leyti sem ég er sammála því að þetta eigi að vera sama klausan er að grundvallarbrotið er þessi ágangur á réttindi barnsins. Það er brotið sjálft í eðli sínu. Síðan getur það verið misalvarlegt, bara eins og líkamsárásir geta verið misalvarlegar þótt það sé ein klausa sem varði þau. Brot eru misalvarleg og fara eftir alls konar hlutum.

Í þeim skilningi skil ég alveg að refsiramminn sé svona þungur. Mér finnst hann alveg hæfilega þungur þegar kemur að limlestingum á kynfærum stúlkna. Ég velti refsirammanum fyrir mér sérstaklega. Helsta ástæðan fyrir því að aðskilja þetta eitthvað, ef það er ástæða til þess, ég er ekki viss eins og ég segi, er kannski að refsingar í lögum þurfa að ná tilteknu markmiði. Ég held að það sé hægt að ná þessu markmiði án þess að hafa refsirammann svona þungan í fyrsta lagi, í öðru lagi kikka inn alls konar rannsóknarheimildir hjá lögreglunni við sex ára fangelsisvist sem er nokkuð sem ég vildi skoða í nefnd. Eins og ég segi er ég óviss um þetta. Ég held að hv. þingmaður nálgist þetta alveg rétt og þetta sé í eðli sínu sama brot en samt er ég ekki viss.