148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[14:46]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að hluta til er það vissulega þannig og sennilega að mestu leyti meira að segja, enda nefndi ég í ræðu minni, og tiltók það sérstaklega, að ég ber mikla virðingu fyrir þessari nálgun að hafa þetta með samtali. En ég held bara að samtalið eigi sér ekki stað nema raunverulega sé stungið upp á því að þetta verði bannað. Að sagt sé eitthvað á þessa leið: Þessi siður sem er rosalega sjálfsagður, hann er ekki sjálfsagður, okkur finnst að það eigi að refsa fyrir hann. Það er gott að fá bara fram umræðuna um það. Ég held að það sé eina leiðin til að fá hana raunverulega fram, annars eru það bara nördar eins og ég að rífast á internetinu, á einhverjum lokuðum spjallrásum úti í heimi. Það fer ekkert voða víða. Þetta fer víða og mér finnst það gott.

Hvað varðar þessa grundvallarspurningu, þetta er rosalega góð spurning, um það hvaðan þrýstingur á breytingar eigi að koma þá er auðvitað langbest að hann komi frá þeim sem halda umræddar hefðir. Það er nauðsynlegt, held ég. Til dæmis með ríkiskirkjuna, sem ég er augljóslega andvígur að sé tengd við ríkið, það er fínt að hafa þessa kirkju, hún má gera það sem henni sýnist mín vegna, mér finnst bara fráleitt að hafa hana hluta af stjórnarskrá og ríki. Það er spurning hvort þrýstingurinn eigi að koma innan frá kirkjunni sjálfri eða hvort við eigum að halda okkur við prinsippin. Prinsippin hljóta að vera jafnræði fyrir lögum. Í því máli sem hér um ræðir trúfrelsi ungbarna.