148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[14:50]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við í Pírötum höfum reyndar lagt fram frumvarp um að hætta sjálfkrafa skráningu barna í trúfélög. Ég hygg að við leggjum það aftur fram ef við erum ekki þegar búin að því, ég hreinlega man ekki hvort við erum búin að leggja það fram á þessu þingi. Hvað varðar skírnina og allt það þá verður atburðurinn sjálfur aldrei tekinn til baka. Ef einhver var skírður þá mun hann alltaf hafa verið skírður. Það er hins vegar augljóslega sjálfsagður réttur fólks að fá að afskrá sig úr öllu sem það er skráð í. Núna er að myndast þessi nýi réttur, persónuverndarréttur, sem heitir rétturinn til að gleymast. Það er hluti af réttindum til að breyta því sem var áður ákveðið fyrir mann. Auðvitað ákveðum við í grunninn rosalega margt fyrir börnin okkar, hvað þau borða, jafnvel hverja þau umgangast, í hvaða skóla þau fara, hvað þau læra o.s.frv., ofboðslega mikið vald sem foreldrar hafa yfir börnum sínum. En þarna er gengið svolítið langt. Þetta er ekki bara skráning í trúarsöfnuð.

Hvað varðar skírnina sjálfa þá, eins áhugaverður og mér finnst þessi málstaður nafna míns Hóseassonar á sínum tíma, þá velti ég fyrir mér: Af hverju kæri ég mig eitthvað um það hvað kirkjunni finnst um mína skírn? Hvað kemur það henni við? (Forseti hringir.) Af hverju er mér ekki sama hvort kirkjan telji mig skírðan eða ekki? Svo lengi sem opinberar skráningar eru samkvæmt mínum vilja þá get ég ekki mikið að því gert hvað öðrum finnst.