148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[14:52]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi að ég hefði meiri tíma til þess að ræða þetta atriði við hv. þingmann vegna þess að víða er umræða um það hvaða sálfræðilegu afleiðingar það hefur að kenna börnum um fyrirbærið helvíti. Legg ég til að fólk virkilega velti því fyrir sér hvað barn hefur frjótt ímyndunarafl og því er kennt að ef það geri einhverja ákveðna hluti eða geri ekki einhverja hluti, eða ef það trúi ekki einhverju sem því finnst einfaldlega ótrúlegt, þá fari það til helvítis. Þetta er rosalega grimm nálgun á tilveruna og eina afsökunin fyrir þessu er að fólk veit ekki betur. En auðvitað er þetta hjátrú.

Svo er það skoðanafrelsi einstaklings. Við þurfum alltaf að nálgast þetta út frá réttindum barnsins. Í þessu máli finnst mér augljóst að það er gengið á réttindi barnsins. Hins vegar hvað varðar rétt okkar til að sannfæra hver annan þá er hann frekar ríkur, í raun og veru algjör vegna þess að við höfum tjáningarfrelsi. En við höfum líka alltaf réttinn til þess að sækja önnur sjónarmið. Þannig að ég myndi fyrst gera athugasemdir við trúarsöfnuði sem bönnuðu börnum að lesa ákveðna hluti (Forseti hringir.) eða að virða fyrir sér heiminn út frá einhverju öðru en mjög þröngu sjónarmiði. (Forseti hringir.) Þar finnst mér við vera komin á mjög hálan ís með það hvað við heimilum. En eins og ég segi, ég vildi óska þess að við hefðum meiri tíma til að ræða þetta mál betur. Kannski gerum við það einn daginn.