148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[15:12]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það eru þessar hefðir sem við stöndum frammi fyrir, trúarhefðir eða annars konar hefðir eins og hér hefur verið rætt töluvert í dag. Ég lauk máli mínu áðan á því að segja varðandi þessi mál að við þurfum að horfa til þeirrar þekkingar og vitneskju sem við höfum í dag. Ég tek undir að við værum ekki að ræða þetta ef þetta snerist ekki um trú. Allt sem snýr að trú vekur yfirleitt upp miklar umræður, alveg sama um hvað er rætt hverju sinni. Og ég er sammála þingmanninum um að þetta yfirtrompar ekki mannréttindin. Það er kannski það sem er svo mikilvægt í þessu.

Að glæpavæða athöfnina? Mér finnst ekki að við séum að því. Það má vel vera að þetta gæti átt heima annars staðar en í almennum hegningarlögum, en ég veit ekki alveg hvar. Það er rétt að við gætum sett einhvers konar lög, einhverja upptalningu á því hvað bannað er að gera við nýfædd börn, samanber intersex-frumvarpið sem heilbrigðisráðherra er með í smíðum og kemur vonandi fram. Þar verður tekið á slíku. Ég veit ekki hvort þetta ætti eitthvað frekar heima þar en hér. Það getur vel verið að það komi í ljós í umræðum í nefndinni að fólki finnist að það sé betur sett þar. Ég hef ekkert sérstaklega leitt hugann að því, ég játa það bara, í hvaða lagabálki nákvæmlega þetta eigi heima. Við viljum gera það refsivert að þetta sé gert hér á landi. Svo getum við deilt um refsirammann, hvort hann sé of þungur. (Forseti hringir.) En alla vega sjáum við til hvað nefndin segir. Ég tek ekki afstöðu til þess.