148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[15:14]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Forseti. Um er að ræða stórt prinsippmál sem við þurfum að taka lengra og gefa okkur tíma til að gera það. Það er verið að glæpavæða þessa aðgerð að hluta með því að segja að hún varði fangelsi allt að sex árum. Þetta er athöfn sem hefur verið trúarathöfn í gegnum tíðina. Það er verið að leggja þetta að jöfnu við umskurð á kynfærum stúlkubarna. Mér finnst ekki rétt að fara þá leið.

Í öðru lagi vil ég líka undirstrika að mér hugnast ekki að umskurður á drengjum sé leyfður út af þeirri meginreglu að við eigum alltaf að huga að hag barna, þeirra er æðsti rétturinn. Þannig að allur vafi sé tekinn af af minni hálfu. Í ljósi þess frumvarps sem er að koma út um intersex-mál frá heilbrigðisráðherra tel ég að við eigum að gefa okkur tíma. Sama hvað hver segir þá tengist þetta trú og trúarlífi sem er líka grundvallaratriði í stjórnarskrá okkar. Þá er mikilvægt fyrir okkur á þingi að vanda til verka. Ég hef trú á að flest séum við sammála í þessu. Ég hef ekki heyrt marga mæla með því að umskurður drengja sé leyfður. Ég hef ekki enn heyrt þingmann tala í þá veru.

Finnum frekar þann flöt sem er réttur. Það er líka mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að við séum ekki að gefa út merki um að við lítum ákveðna trúarhópa, múslima, gyðinga, öðrum augum en aðra. Ég vara við því að við förum þá leið.

Ég fagna þessari umræðu, finnst hún einstakt tækifæri fyrir okkur þingmenn til að takast á við heimspekileg atriði en líka grundvallaratriði í okkar samfélagi. En við verðum við að fara réttu leiðina, vanda okkur og kalla til öll sjónarmið, en auðvitað eiga sjónarmið barnsins að ráða öllu í þessu.