148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[15:19]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur, flutningsmanni þessa frumvarps, fyrir að leggja frumvarpið fram, sem hún gerir hér með átta öðrum þingmönnum, en ekki síður fyrir að vekja máls á þessu málefni sem réttilega hefur vakið okkur til umhugsunar um ævaforna siði sem eru okkur ókunnugir að meira eða minna leyti. Ég vil einnig lýsa yfir sérstakri ánægju með hversu margir hafa tekið hér til máls og haft skoðun á frumvarpinu og efni þess og spurt spurninga, erfiðra spurninga. Hér er um breytingu á 1. mgr. 218. gr. hegningarlaga að ræða þar sem bætt er við fyrra ákvæði, sem sett var 2005, þar sem refsing var lögð sérstaklega við limlestingum á kynfærum kvenna. Það er sem sagt verið að breyta fyrri lið ákvæðisins en seinni liðurinn er látinn halda sér.

Í þessu máli lýstur saman menningarheimum í trúarlegum skilningi og engu öðru. Trúarkreddur eru sem betur fer á undanhaldi í samfélagi okkar eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson rakti hér áðan. Við eigum auðvitað ekki að samþykkja slíkt ef það stefnir í voða heilsu barna okkar, heilsu ómálga barna. Ef við reynum að setja þetta í eitthvert samhengi — ég var að reyna að láta mér detta í hug eitthvað sambærilegt, eitthvað af svipuðum toga — þá mætti hugsa sér að hér yrði stofnaður trúarhópur og einn siður hans væri að skera geirvörturnar af barnungum drengjum. Þetta er svipuð aðgerð. Geirvörtur á karlmönnum eru ekki nauðsynlegar nema þá helst til fegurðar og nokkurs yndisauka. Ég er ekki í nokkrum vafa um að slíkt athæfi yrði fordæmt, litlu skinnunum sýnd hin mesta samúð, auk þess sem foreldrunum yrði refsað eftir gildandi hegningarlögum.

Samkvæmt núgildandi lögum er þetta refsivert nú þegar, óheimilt. Við getum ímyndað okkur að maður ráðist á annan mann og skeri af honum forhúðina. Þar er klárlega um hegningarlagabrot að ræða sem hefði alla burði til að fara fyrir dómstóla. Látum vera ýmsar spurningar um kæru eða frumkvæði ákæruvaldsins við að taka slíkt brot til rannsóknar að eigin frumkvæði. Það er næsta víst að lögreglan tæki slíkt mál til rannsóknar eftir kæru þess sem fyrir yrði. Alveg örugglega. Og jafnvel einnig að eigin frumkvæði ef hún yrði þess áskynja, þó ekki væri nema vegna aðferðarinnar sem beitt væri, nú eða tækjanna sem notuð væru. Það yrði þá eins og endranær erfitt að rannsaka slíkt brot ef sá sem yrði fyrir árásinni vildi ekki kæra. Þá yrði sönnunarvandamál og hugsanlegt samþykki og eitthvað slíkt. Það eru allar líkur á að slíkt brot fengi hefðbundna meðferð í refsivörslukerfinu og hinn brotlegi hlyti dóm að lokum og refsingin yrði ákveðin samkvæmt 218. gr.

Ef móðir kærði föður fyrir að umskera ungan son þeirra hjóna, ef það myndi nú gerast hér, hvernig yrði farið með slíkt mál í kerfinu í dag, samkvæmt núverandi lagaumhverfi? Ég er ansi hræddur um að lögregluyfirvöld yrðu að rannsaka málið. Þrátt fyrir ýmsar skiljanlegar, eða ekki skiljanlegar, afsakanir af trúarlegum ástæðum, sem yrðu bornar fram, væri ansi líklegt að umskurðurinn lenti að lokum í ákæruskjali sem líkamsárás. Spurningunni um hvort hér sé verið að gyrða sig bæði með belti og axlaböndum held ég að sé rétt að svara með því að svo sé. En það breytir ekki því að unnt er að finna fleiri dæmi um slíkt í refsilögum. Ég sé ekkert að því að frumvarpið nái fram að ganga og ákvæðið taki gildi þrátt fyrir það sem ég var að nefna. Þarna er einungis verið að árétta þessa tilteknu aðferð við líkamsárás og sérgreina hana.

Ég hef í raun ekkert sveiflast í þessu máli. Ég er einfaldlega í grunninn andvígur því að gerðar séu óafturkræfar, ónauðsynlegar og blóðugar, í flestum tilfellum sársaukafullar og í sumum tilfellum hættulegar, aðgerðir á börnum eða hvítvoðungum. Hvítvoðungur og ónauðsynleg aðgerð á kynfærum hans er ekki í boði að mínu mati, sérstaklega er þetta þó subbulegt ef hugsað er til þess að stundum eru aðstæður í kringum þessar aðgerðir afar bágbornar. Hnífurinn er ef til vill ryðgaður og í höndunum á tinandi gamalmenni.

Ég vil endurtaka það sem ég sagði í upphafi: Ég fagna frumvarpinu og umræðunum sem hafa skapast, þær hafa verið gagnlegar. Þær hafa líka verið athyglisverðar. Ég hlakka til að heyra þá umræðu sem mun án efa skapast á næstu vikum um efni þessa frumvarps.