148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[15:26]
Horfa

Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Hann bar fram nokkrar spurningar sem hafa komið fram áður í umræðunni og við þurfum að svara. Ég geri ráð fyrir að þegar málið er gengið til nefndar fari nefndin vel yfir þær spurningar. Ein spurningin er sú hvort slík löggjöf, sem nú er lagt til að verði samþykkt, sé nauðsynleg yfir höfuð, hvort ekki sé nú þegar refsivert að umskera drengi. Ég hef rætt við nokkra lögfræðinga og spurt út í þetta. Það eru skiptar skoðanir um það, þetta er ekki skýrt. Þess vegna er mjög mikilvægt að fá úr þessu skorið þegar nefndin er komin með málið til sín.

Ég hef líka spurt: Þegar lögin voru sett 2005, um bann við umskurði á stúlkum og konum, var þá þörf á þeim? Er ekki alltaf um að ræða brot á hegningarlögum þegar um limlestingu og líkamsárás er að ræða? Ég varpa þessu svolítið til baka til þingmannsins og langar að fá hans skoðanir á þessu. Nú hafa nokkrir þingmenn, sem hér hafa talað í dag, líka nefnt refsirammann og hvort rétt sé að leggja þetta mál fram á annan hátt. Mig langar til að heyra skoðun þingmannsins á því hver sú leið mögulega væri. Í frumvarpinu eins og það er lagt fram nú er í raun einungis gerð ein orðalagsbreytingu á núgildandi lögum frá 2005, orðinu stúlka er breytt í barn. Það er eina breytingin á núgildandi lögum. Ég velti því fyrir mér hvort rétt væri að hafa aðra grein sem gilti þá einungis um drengi og hafa þá annan refsiramma fyrir brot gegn þeim að mati þingmannsins.