148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[15:28]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka frummælanda málsins, hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur, fyrir spurningu hennar. Ég held að þegar lögunum var breytt 2005, og stúlkurnar teknar sérstaklega inn og þetta sett inn í lögin, hafi menn bara ekki haft hugmyndaflug eða hugkvæmni til að setja drengina inn. Ég myndi giska á það þó að ég hafi ekki kynnt mér það. Auðvitað er eðlilegt að setja bæði kynin þarna inn. Að sjálfsögðu. Mér finnst þetta eðlileg breyting og alls ekki að hafa þetta í tveimur ákvæðum eða tveimur málsgreinum og aðgreina þannig stúlkur og drengi. Ég er algerlega sammála eins og þetta er orðað núna, að kynfæri allra barna, hvort sem um er að ræða stúlku eða dreng, eigi að vera þarna inni á jafnréttis- og jafnræðisgrundvelli. Að sjálfsögðu.

Að þetta sé nú þegar refsivert? Hv. þingmaður segir tvennum sögum fara af því hvort svo sé. Ég held, eins og ég tók fram í minni ræðu nokkuð ítarlega, að þetta sé refsivert nú þegar. Hins vegar er algengt að árétta og sérgreina ákveðin atvik, ákveðin brot, og taka út úr heildarrammanum. Ég gæti hugsanlega nefnt dæmi um það í hegningarlögum, eins og morð. Ákveðnar týpur og tegundir af manndrápum eru teknar út fyrir sviga og settar í aðra grein. Þetta er ekkert nýtt og það er örugglega hægt að finna fjöldamörg önnur dæmi um þetta. Það kemur ekkert í veg fyrir það. Það er bara verið að árétta þetta, beina sjónum að þessu. Þetta er í ákveðnum trúarhópum eins og við vitum. Þá beinist kastljósið að þessu. Þannig að ég held að þetta standi ekki í vegi fyrir frumvarpinu.