148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[15:30]
Horfa

Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þingmaður nefndi í svari við fyrra andsvari að hann teldi hreinlega að menn hefðu gleymt að nefna drengina í lögunum sem sett voru 2005, eðlilegra hefði verið að þá hefði einfaldlega verið sett bann á slíkar aðgerðir á börnum hvors kyns sem þau eru. Mér finnst sjálfri eðlilegt óháð öllu, hvort sem við köllum aðgerð umskurð eða annað, að ónauðsynlegar aðgerðir á börnum séu bannaðar. Yfirlýsingar lækna sýna okkur að læknarnir, sem eru þeir aðilar sem eiga þá að gera þessar aðgerðir á börnunum, væntanlega, miðað við okkar lagaumhverfi, nema við viljum leyfa trúarleiðtogum með enga læknisfræðimenntun að gera slíkar aðgerðir í heimahúsum. Það gæti orðið niðurstaðan hér á Alþingi. Alþingi er með málið hjá sér. Ef þessir aðilar hafa sérfræðikunnáttuna og vinna samkvæmt ákveðnum skuldbindingum, um að skaða ekki, hljótum við að þurfa að hlusta á þá. Það hlýtur bara að vera ósiðlegt að öllu leyti að gera ónauðsynlegar aðgerðir á börnum, óháð tegund þeirra.

Mig langar að spyrja þingmanninn: Ef umskurður á drengjum tengdist á engan hátt trúarbrögðum, siðvenjum eða slíku, telur þingmaðurinn þá ekki líklegt að þetta hefði verið bannað 2005? Því að ég held að drengirnir hafi ekki gleymst 2005. Ég held að þetta hafi verið gert af meðvituðum ástæðum. Nú erum við með ákveðnar röksemdarfærslur, sterkar röksemdarfærslur, fyrir því að bann á umskurði á drengjum brjóti ekki á trúfrelsi foreldra. Er þá nokkur ástæða fyrir okkur að leyfa þessar aðgerðir áfram?