148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[15:33]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gott að fá upplýsingar um að drengirnir hafi ekki gleymst 2005, mér var ókunnugt um það. (Gripið fram í.) Ef það er rétt er ég kannski enn meira hissa og tel enn meiri ástæðu til að frumvarpið fái þá umræðu og afgreiðslu sem ég vona að verði, eins og vera ber. Við eigum auðvitað ekki að gera upp á milli kynjanna, alls ekki. Það er fráleitt. Það á það sama að ganga yfir bæði kynin.

Ég vil undirstrika það hér í lokin að þessi aðgerð eins og hún hefur verið gerð — og þá er ég ekki að tala um aðgerð í læknisfræðilegum tilgangi, sem hefur stundum reynst nauðsynlegt að gera á drengjum, forhúðaraðgerðir, ég hef engar athugasemdir við það enda er það rökstutt sérstaklega fyrir hverja aðgerð af hverju það er — af trúarlegum ástæðum, hún er langoftast ónauðsynleg fyrir barnið. Þetta er óafturkræft. Barnið getur ekki snúið til baka þótt það vilji síðar meir. Þetta er sársaukafullt — við höfum lesið og heyrt sögur af börnum grátandi dögum saman með kvalir — þetta er blóðugt og síðast en ekki síst er þetta hættulegt. Við höfum heyrt fjöldamargar sögur um að börn hafi fengið sýkingar og jafnvel dáið, sögur utan úr heimi þar sem þetta á sér stað.