148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[15:35]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég hef skráð mig á frumvarpið og styð það heilshugar. Það tók mig ekki nema sekúndubrot að ákveða að styðja það algjörlega. Ég hafði ákveðnar ástæður fyrir því sem ég ætla ekki að tilgreina hér. Ég hóf þessa umræðu í hádeginu í dag fyrir svo til tómum sal en síðan hafa spunnist góðar umræður um þetta.

Hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson fór meðal annars að líkja þessu máli við hálskirtlatöku. Fyrsta minning mín frá því að ég var þriggja ára barn er um svæfingargrímu sem var sett yfir andlitið á mér til að svæfa mig fyrir hálskirtlatöku. Skelfing mín yfir því er enn múruð í huga mér. Það sýnir hvernig hugurinn er að ef ég reyni að rifja upp bestu minninguna mína þá kemur upp atvik sem gerðist tveimur til þremur árum seinna; þá var ég með afa mínum á spegilsléttum firði, í Álftafirði, að sumri til og fékk harðfisk. Sú minning er góð og hún er líka í mínum huga, en samt er slæma minningin alltaf fastari inni. Það er ekki hægt að líkja umskurði við það að taka hálskirtla. Ég var mjög veikur, var alltaf veikur, frá fæðingu þar til hálskirtlarnir voru teknir og því fylgdu ýmis vandamál. Foreldrar mínir gerðu það af góðmennsku að reyna að lækna mig. Það að líkja þessu tvennu saman er alveg út í hött. Líka í sambandi við bólusetningar og annað.

Ég vildi bara koma þessu að. Ég á sæti í allsherjar- og menntamálanefnd og þangað fer þetta mál; ég mun fylgja því eftir þar. Ég styð þetta mál algjörlega og vil þakka frummælanda, Silju Dögg Gunnarsdóttur, fyrir að hafa komið því á dagskrá.