148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[15:37]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur fyrir að setja þetta mál á dagskrá. Ég held að umræðan hér í dag og kannski ekki síst sú umræða sem frumvarpið hefur fengið í samfélaginu öllu, ekki bara hér á Íslandi heldur víða, sýni glöggt að þörf er á henni. Ég fagna því að frumvarpið sé lagt hér fram. Ég er ekki einn af flutningsmönnum og verð að viðurkenna að ég er ekki alveg búin að móta mér skoðun á því hvort ég myndi styðja það óbreytt eða ekki. Þó hnígur mun fleira í þá átt að ég myndi styðja frumvarpið.

Hæstv. forseti. Mér þykir þessi umræða hér í dag hafa verið býsna málefnaleg og góð. Ég vil þakka fyrir það og í ljósi þess að nú er dagur hróssins vil ég hrósa hv. þingmönnum, sem tekið hafa þátt í umræðunni, því að mér hefur fundist hún vera málefnaleg. Ég held að það sé einmitt svona sem við eigum að vinna í þessum góða sal. Það er reyndar eitt, það er nú reyndar margt, sem ég ætla að nefna sérstaklega sem ég hugsa dálítið um í tengslum við þetta mál og reyndar líka annað mál. Ég hef hér flutt þingsályktunartillögu um dánaraðstoð. Inn hafa komið umsagnir frá aðilum, hvort sem þeir eru hér á landi eða erlendis, sem segja að svona mál eigi ekki að vera á dagskrá hér, og vilja með einhverjum hætti beita valdi sínu til að taka málið af dagskrá hjá lýðræðislega kjörnum fulltrúum á Íslandi, það er eitthvað sem hræðir mig mjög og fær mig til að segja: Við eigum að standa í lappirnar og taka þá umræðu sem við viljum taka hér, því til þess erum við kosin. Ég hjó eftir þessu í umsögnum og tölvupóstum sem við höfum fengið um þetta frumvarp. Svo hef ég líka séð umsögn um þingsályktunartillögu um dánaraðstoð sem fer í sama farveg, að þetta sé ekki mál sem eigi að vera til umræðu í þessum fína sal. Að þessu sögðu verð ég líka að viðurkenna að þessi umræða gerir það að verkum að maður veit orðið meira en maður hafði áhuga á áður að vita um þessa aðgerð sem er umskurður á karlmönnum eða ungum drengjum.

Mig langar, með leyfi forseta, að fá að lesa upp sögu sem ég fann á veraldarvefnum, á Facebook-síðu Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, fyrrverandi þingmanns og ráðherra, undir fyrirsögninni Saga af umskurði, með leyfi forseta:

„Þegar ég bjó í Bandaríkjunum fyrir rúmum tveimur áratugum var mér boðið í „umskurðarhátíð“ til vina minna sem voru gyðingar. Þau höfðu nýlega eignast dreng og samkvæmt trúarhefðum átti að umskera drenginn í votta viðurvist á áttunda degi. Þetta var mikill hátíðisdagur, fjölskyldu og vinum boðið til veislu um hádegisbil þar sem veisluborð svignuðu af alls konar veitingum.

Sjálf athöfnin fór fram í stofunni hjá þeim, einmitt við hliðina á matarhlaðborðinu. Ég viðurkenni að ég og vinkona mín, sem vorum einu gestirnir sem ekki voru gyðingatrúar, vorum aðeins kvíðnar. Auðvitað fyrir hönd litla drengsins en einnig höfðum við áhyggjur af því hvernig okkur gengi að halda kúlinu (og morgunmatnum) yfir þessu öllu saman. En við hugsuðum með okkur að þetta hefði verið gert svo öldum skipti og að rabbíinn hlyti að kunna til verka.

En svo kom rabbíinn og þá fyrst fór um okkur. Hann var háaldraður, titrandi og skjálfhentur. Hann kunni svo sannarlega til verka, leit reyndar út fyrir að hafa persónulega séð um þessar athafnir svo öldum skipti. Hann stillti sér upp við veisluborðið, dró upp risastór skæri, blessaði barnið í bak og fyrir og dembdi sér svo í verkið. Við vinkonurnar tókum andköf þegar stóru skærin nálguðust hið pínulitla líffæri drengsins ... í skjálfandi höndum hins aldraða trúarleiðtoga. Skerandi öskur barnsins og snökt móður hans (sem var ekki fædd inn í gyðingatrú en hafði nýlega tekið hana upp) er það sem ég man næst. Og svo þegar rabbíinn klárar verkið, setur blóðugt viskustykkið með blóðuga stykkinu úr drengnum, sem leit út eins og ferskur calamari, frá sér á matarborðið. Og skömmu síðar var fólki boðið að gjöra svo vel.

Við vinkonurnar þurftum aðeins að jafna okkur á þessu og ég viðurkenni að matarlystin var ekki mikil. Enda höfðum við lítinn tíma til að borða þar sem við vorum uppteknar við að sinna móðurinni, sem var algjörlega óhuggandi og sannfærð um að drengurinn litli myndi þurfa sálfræðihjálp alla ævi til þess að komast yfir þetta áfall.“

Þessi saga fékk mig reyndar til að hugsa. Ef slík athöfn ætti sér stað í húsi hér á Íslandi er það raunverulega svo að það myndi ekki stangast á við íslensk lög? Í ljósi þeirrar umræðu sem sprottið hefur upp hér í dag hafa margir viljað færa fyrir því rök að svo kunni að vera að aðgerðir af þessu tagi, sérstaklega þegar þær eru gerðar af ófaglærðum í heimahúsi, brjóti í bága við íslenska löggjöf. Ég verð eiginlega að viðurkenna að ég vona að svo sé. Ég held að það sé hollt og gott fyrir okkur að taka þetta frumvarp áfram, að það fari til nefndar og fái málefnalega umræðu þar. Ég sé að þó nokkrar umsagnir hafa borist við það nú þegar. Ég geri ráð fyrir því að þeim muni fjölga verulega þegar málið fer í formlegt ferli og aðilum verður boðið að tjá sig sérstaklega um málið. Ég hallast reyndar að því að það kunni að vera að þessir hlutir séu ekki leyfðir samkvæmt íslenskri löggjöf, en í ljósi þess að við erum engu að síður að ræða það þurfum við að skera úr um það hvort svo er.

Nú veit ég að þessi saga er ekki endilega, eða ég veit það reyndar ekki, en ég ímynda mér það, dæmigerð um þessa aðgerð, en það er augljóst að svona lagað þekkist. Það þekkist í Bandaríkjunum sem er ríki sem við berum okkur oft saman við í ýmsum málum. Þetta gæti þá allt eins gerst í Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og þá kannski á Íslandi. Hvernig myndum við þá bregðast við ef svo væri? Ég hallast að því að í einu öllu eigum við alltaf að hlusta á og bera virðingu fyrir réttindum barnanna. Þó að við séum hér að ræða um mjög viðkvæm mál, trúfrelsi og hefðir, hlýtur það engu síður að vera svo að rétturinn sé barnsins og að barnið geti þegar það kemst á ákveðinn aldur ákveðið sjálft fyrir sig ef það óskar eftir slíkri aðgerð.

Ég held ég hafi þetta ekki lengra. Ég ítreka þakkir mínar til fyrsta flutningsmanns tillögunnar og þeirra sem hafa tekið þátt í umræðunni hér í dag. Mér þykir hún hafa verið málefnaleg og góð.