148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[15:48]
Horfa

Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar ég fór að skoða þetta mál á sínum tíma, sem var í fyrrahaust, voru nokkrir möguleikar fyrir hendi; það var spurning um barnalögin eða hegningarlög og þessa tilteknu grein. Við erum með lögin frá 2005 um þessa tilteknu aðgerð á stúlkum og konum — ég get tekið undir það að mögulega er eðlismunur á þessum aðgerðum, en báðar brjóta þær á réttindum barnsins og eru óafturkræfar, valda ónauðsynlegum sársauka og eru mögulega hættulegar — og því fannst mér það skrýtið, þegar ég fór að velta því fyrir mér hvernig væri best að gera þetta, að búa til sérstaka lagagrein sem gildir einungis um slíkar aðgerðir á drengjum og hafa þá annars konar refsingu, sektarákvæði, færri ár eða hvað. Ég er ekki hér til að dæma í þessu máli. Ég legg málið fram til umræðu ásamt öðrum og til frekari vinnslu, vegna þess að ég treysti Alþingi best til þess að finna út úr þessum flóknu atriðum. Þetta eru lagatæknileg atriði og þarna eru alls kyns hlutir, eins og margir hafa bent á; þarna erum við komin inn í trú og heimspeki og sögu og hvaðeina og tilfinningamál. Þetta er erfitt.

Ég er opin fyrir góðum hugmyndum, en finnst samt eitthvað rangt við það að hafa annars konar refsingu fyrir brot gegn drengjum sem eru börn. Börn eru börn, og mér finnst eitthvað rangt við annars konar refsingu fyrir brot gegn stúlkum fyrir sams konar aðgerð þó að líffærin séu ólík.