148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[16:21]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég held að við séum alltaf sammála um þetta. Við erum að verja hagsmuni barnsins, verja það fyrir óafturkræfri aðgerð af hvaða ástæðu sem er, hvort sem það eru trúarbrögð, siðir eða venjur, trú foreldra á heilbrigðissjónarmiðum. Ég styð þá nálgun heilshugar að við ræðum þetta út frá hagsmunum barnsins og að þetta sé sjálfsákvörðunarréttur einstaklings sem er orðinn nægilega gamall og þroskaður til að taka slíka ákvörðun.

Varðandi intersex-umræðuna er ég kannski ekki sammála hæstv. þingmanni um réttindi foreldra til að taka ákvörðun. Er hún ekki af nákvæmlega sama meiði og ákvörðun foreldranna í þessari umræðu? Börn eða einstaklingar hafa ekkert orðið fyrir minni skaða af rangri ákvörðun í þeim tilvikum, í ákvörðun foreldra um að grípa inn í og leiðrétta. Ég held að barnið þurfi að vera með í því ákvörðunartökuferli til að geta lýst því hvað það kjósi. Hér er ég að tala um kynleiðréttingar. Það er enginn annar en einstaklingurinn sjálfur sem getur tekið af allan vafa um með hvaða hætti skuli leiðrétt.