148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[16:23]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Hann misskildi mig að einu leyti: Í sambandi við kynleiðréttingar var ég eingöngu að hugsa um að læknisfræðilega þyrfti að grípa inn í, ekki að það væri á valdi foreldra heldur háð því sem læknir segði um að grípa yrði inn í af því að barn væri í hættu. Það þarf samþykki foreldra í þeim tilfellum.

Ég hef farið í nokkuð margar aðgerðir, bæði smáar og stórar. Það er aldrei neitt auðvelt. Það er alveg með ólíkindum að það skuli vera hægt í nafni trúar — trúin er bara skrifuð af okkur mannfólkinu — að þvinga barn í óafturkræfa aðgerð af því einu að trúin segi það. Ég gæti aldrei samþykkt slíkt.