148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[16:24]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við þingmenn séum alveg hjartanlega sammála þar. Við viljum girða fyrir að hægt sé að þvinga barn þegar það hefur ekkert vit til að meta hvað er að gerast yfir höfuð. Við erum alltaf að verja hagsmuni barnsins.

Þegar kemur að intersex-umræðu og kynleiðréttingum og hvað er læknisfræðilega nauðsynlegt þá tek ég skýrt fram að ég er ekki mikill sérfræðingur í þeim málefnum. En ég skil mjög vel ótta hagsmunasamtaka hinsegin fólks svo að dæmi sé nefnt. Það er vissulega yfirlýst markmið aðila eins og Landspítalans að ekki séu gerðar óafturkræfar aðgerðir sem ekki séu algerlega læknisfræðilega nauðsynlegar. Engu að síður neitar embætti landlæknis að tjá sig um aðgerðir sem þessar eða stefnu í þeim. (Forseti hringir.) Fólk óttast að þetta sé ekki nægilega gegnsætt, að reglur séu ekki nógu skýrar og að mögulega sé verið að gera ónauðsynlegar aðgerðir. Þess vegna er mjög gott að ræða þessi mál saman. Á endanum gæti samræmd löggjöf gilt um þetta.