148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[16:41]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langaði bara til að bæta aðeins við mál hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar þar sem hann minnti mig á einstaklega lýsandi tilvik í kvikmyndasögunni sem er hliðstæða við málflutning hans um þegar Móses fór upp á fjallið. Þar fór Mel Brooks með hlutverk Móses í myndinni History of the World: Part I eða: Saga heimsins: fyrsti hluti, þar sem hann kom af fjallinu með þrjár steintöflur og sagði að guð hefði gefið sér þessi fimmtán, en missti þá eina steintöfluna sem brotnaði, og leiðrétti sig þá: Tíu boðorð. Þannig sátum við uppi með tíu en ekki fimmtán. Það gæti kannski útskýrt þennan samanburð sem þingmaðurinn gerði um að þessum boðorðum, sem okkur eru sett, hefur fækkað, kannski óvart og kannski viljandi.

Ég vildi bara nota þetta dæmi til að lýsa því hversu undarlegt og fáránlegt það er að við miðum okkur við ákveðin siðferðisboðorð sem tvímælalaust falla úr gildi, siðferðislega, eftir því sem samfélagið þróast. En einhverra hluta vegna lendum við í ákveðnum vandamálum og hættum að fylgja þessum boðorðum en fylgjum hinum enn þá, þó að það sé orðið mjög siðferðislega undarlegt og stangist á við ýmsar yfirlýsingar okkar um mannréttindi. Ég held að Mel Brooks í þessu tilfelli hafi misst enn eina steintöfluna og við ættum bara að halda okkur við þau fimm sem eru eftir.