148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[16:43]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Boðorðin eru 613. Móses tók saman ákveðin grundvallaratriði í þessi tíu og meitlaði í stein, segir sagan. Alla vega upphóf hann þessi atriði. Þetta er náttúrlega mjög skiljanlegt. Þegar menn ætla að halda saman hópi fólks reyna þeir að setja einhvers konar sameiginleg gildi, hvetja til eða stuðla að því að ákveðnum gildum sé framfylgt, sama hvort það er með því að grýta fólk til bana eða með vægari aðgerðum eins og við höfum þróast í. Það er sér í lagi skiljanlegt ef þeir trúa því að ef þetta sé ekki gert, … þegar fram í sækir, en flestir trúa því að ef þetta er ekki gert sértu búinn að slíta sáttmálann við guð sem er nauðsynlegur fyrir farsæld þína og eilífð og öryggi. Við verðum að setja okkur inn í hugarheim fólks sem trúir þessu og bera virðingu fyrir því að það sé sjónarmið. Það þýðir ekki að það sjónarmið eigi að vega þyngra þegar við tökum ákvörðun. En það er mjög mikilvægt að átta sig á að það er sjónarmið og á sama tíma horfa til þess að það sjónarmið hefur verið að breytast, þ.e. hversu vel þurfi að uppfylla þessar 613 reglur, og eitt þeirra er að umskera átta daga gömul sveinbörn.

Það sagði mér Ísraeli, sem var náttúrlega kallaður í herinn eins og er í Ísrael og þegar hann var með félögum sínum í hernum að vernda eina landnemabyggð og það var á, nú man ég ekki hver helgidagurinn er, er það ekki laugardagur? Jú, laugardagur er sabbatinn. Þá voru bókstafstrúarmenn þar sem grýttu hermennina fyrir að vera að vinna á helgideginum. (Forseti hringir.) Það er mjög mismunandi hversu langt fólk er tilbúið að ganga í að halda allar þessar 613 reglur.