148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[17:10]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum sem hefur verið kallað í almennri umræðu umskurðarfrumvarpið. Það er rétt sem hefur komið fram í umræðunni í dag að að mörgu leyti má segja að sú athygli sem þetta mál hefur fengið bæði hér innan lands og erlendis hefur vakið a.m.k. nokkra athygli þeirra þingmanna sem að málinu standa, en jafnframt vakið okkur kannski til vitundar um það að hér gætu Íslendingar, Alþingi Íslendinga, stigið mjög mikilvægt skref eins og það hefur áður gert í ýmsum mannréttindamálum. Það gæti verið býsna dýrmætt að íslenska þingið eða Alþingi Íslendinga hefði þar leiðsögn eins og við höfum gert í sumum öðrum málum.

Það er rétt að taka fram í upphafi umræðunnar að ég er einn af flutningsmönnum frumvarpsins. Ég vil nálgast þetta mál fyrst og síðast út frá mannréttindavinklinum og heilbrigðisþjónustuvinklinum, þ.e. við erum ekki þannig samfélag sem gerir óþarfar og óafturkræfar aðgerðir á fólki, sérstaklega ekki ef það er ekki hægt að spyrja það leyfis. Þannig er bara ekki gert hér á Íslandi. Það myndi t.d. þykja kindarlegt í dag ef það hefði einhvern tímann verið í trú Íslendinga eða í trúnni hér á Íslandi að það ætti að taka hálskirtla úr öllum börnum og við værum enn þá að gera það af einhverjum trúarástæðum. Auðvitað myndum við ekki gera það. Við myndum endurskoða það vegna þess að nú er enginn vísindalegur grunnur á bak við það, að það sé einhver skynsemi í því.

Á nákvæmlega sama hátt erum við að sumu leyti, ég ætla ekki að segja kannski undir mikilli pressu en það hefur komið töluvert af röksemdum um að þetta sé svo mikið heilbrigðismál. Ég ætla að leyfa mér að segja það hér: Það er rangt að það sé til einhvers gagns heilsufarslega séð að skera part af litlu barni. Það er ekki þannig. Það getur verið það ef einhver mein eru fyrir hendi, en það á ekki við þarna. Rökin sem menn hafa fært fram eru til að mynda að þetta verji þessa blessuðu drengi við krabbameini í forhúð. „Dah“, myndi einhver myndi segja — fyrirgefðu herra forseti, þetta er óhefðbundið tal í ræðustól. Auðvitað fá menn ekki krabbamein í líffæri sem þeir eru ekki með. Að ætla að nota það sem röksemd til þess að halda þessu áfram er algjörlega út í hött. Á sömu forsendum myndum við velta því fyrir okkur að taka úr fólki „ónauðsynleg líffæri“ sem gæti komið krabbamein í. Myndum við einhvern tímann samþykkja það? Auðvitað ekki. Það myndi aldrei koma til.

Við ræðum þetta fyrst og síðast sem mannréttindamál. Það er mikilvægt að menn hugsi það þannig. Við erum ekki að tala um það að ungir karlmenn geti ekki ákveðið þegar þeir eru orðnir fullveðja að fara fram á að svona aðgerð sé gerð á þeim. Það er þeim algjörlega heimilt ef þeir vilja gera það af trúarástæðum. En við erum að verja rétt barnanna. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er algjörlega skýr hvað þetta varðar. Amerísku barnalæknasamtökin hafa tekið mjög afgerandi afstöðu í þessu máli, þ.e. þau telja engar læknisfræðilegar forsendur fyrir því að framkvæma umskurð á drengjum nema það séu einhverjar sem við köllum læknisfræðilegar ábendingar til þess. Það er sjaldnast.

Í opinberri umræðu hér á Íslandi hafa margir læknar verið nokkuð áberandi í umræðunni. Það er kannski rétt að nefna að það hafa í kringum 500 íslenskir læknar skrifað undir yfirlýsingu um að þeir séu samþykkir eða sammála efni þessa frumvarps.

Hér í umræðunni í dag hefur verið rætt dálítið um hvort sá refsirammi sem er nefndur í frumvarpinu sé eðlilegur. Það hefur líka verið rætt svolítið um það hvort það geti verið einhvers konar stigsmunur á þessum glæpum, af því að við erum þegar, og við skulum átta okkur á því, hv. þingmenn, búin að skilgreina umskurð á stúlkum eða meybörnum sem glæp. Það má velta því fyrir sér hvort það að skilgreina umskurð á drengjum sem jafn alvarlegan glæp sé rétt, en eins og hv. þm. Jón Þór Ólafsson kom inn á áðan þá er þetta bara stigsmunur, þetta er ekki eðlismunur. Þetta er stigsmunur og mikilvægt að hafa það í huga.

Ég vil ekki gera lítið úr mikilvægi trúarbragða. Alls ekki. Ef menn nenna þá geta þeir flett upp í þingræðum sem ég hef haldið um þau mál. Ég held að trúfrelsi sé eitt það mikilvægasta sem fólk hefur og á, en trúin má aldrei vera á þeirri forsendu að hún skaði einhverja einstaklinga. Það á ekki að vera rétturinn. Hv. þm. Jón Þór Ólafsson kom einnig inn á það áðan að það eru til trúarbrögð þar sem menn vilja ekki þiggja blóðgjafir. En gagnvart þeim ákvörðunum hafa einmitt fallið dómar um að foreldrum sé auðvitað ekki heimilt að neita blóðgjöf fyrir börn sín ef það að hafna blóðgjöfinni getur orðið til þess að barnið deyi. Það er bara ekki þannig.

Það hafa líka komið fram í umræðunni vangaveltur um það hvort þetta þýði þá að með aðrar læknisfræðilegar aðgerðir, önnur læknisfræðileg inngrip eða önnur inngrip gagnvart börnum okkar, eigi alltaf að gilda einhvers konar réttindi barnsins til að ákveða sjálft síðar meir. Þarna á er grundvallarmunur, hv. þingmenn. Þegar við tölum um aðgerðir, við skulum segja bólusetningar á börnum, við skulum segja aðgerðir sem minnka líkur á að börn sem hafa ítrekað fengið sýkingar í miðeyru og annað fái slíkar sýkingar aftur, þá liggja þar að baki gagnrýndar rannsóknir. Það er munurinn. Þess vegna er mjög mikilvægt að hafa það í huga að það er ekki hægt að bera þetta tvennt saman. Það er bara ekki hægt. Börnin verða alltaf að njóta vafans í þessu.

Það eru til trúarhópar og trúarsamfélög víða um heim sem nota umskurð sem manndómsvígslu hjá karlmönnum. Á einhverjum stöðum í Afríku eru til dæmi um að þessar manndómsvígslur fari fram við 16 ára og stöku tilfellum við 18 ára aldur, þ.e. þessir drengir eru orðnir sjálfráða. Það er aftur grundvallarmunur. Það neitar því enginn að það geti í einstaka tilfellum skipt máli að gera umskurð á dreng í heilsufarslegu tilliti, en það er, eins og kom fram í máli Kristjáns Óskarssonar, barnaskurðlæknis, í Ríkisútvarpinu um daginn, kannski hálft til eitt tilfelli hér á Íslandi. Það er nú ekki meira en það, þetta er sárasjaldgæft.

Aðgerðin er ekki sambærileg við umskurð á stúlkubörnum. Auðvitað er hún það ekki. Það eru að vísu til nokkrar aðferðir við umskurð á stúlkubörnum, mismikil inngrip, en það er ekki hægt að segja að þetta sé algjörlega sambærilegt. Auðvitað má ræða það í hv. allsherjar og menntamálanefnd hvort það eigi að gera einhvern mun á þessu. Ég myndi ekki sjá neitt athugavert við það að menn tækju þá umræðu í nefndinni. Ég myndi líka leggja mikla áherslu á að það yrði fengin umsögn frá hv. velferðarnefnd um málið, þ.e. allsherjar- og menntamálanefnd fengi slíka umsögn frá velferðarnefnd.

Menn hafa í þessari umræðu velt því upp líka hvort intersex-fólk skaðist af þessari umræðu eða hvort umræðan myndi gera það að verkum að væri ekki hægt að framkvæma aðgerðir á intersex-fólki. Við skulum átta okkur á því, hv. þingmenn, að réttindabarátta intersex-fólks er í nákvæmlega sama farvegi, þ.e. að reyna að hindra aðgerðir á þessum börnum sem fæðast með það sem áður hefur verið kallað órætt kyn eða óræð kyneinkenni og að þau fái að ákveða sjálf þegar þau hafa vit og þroska til hvort það kyn sem þau á endanum verða er drengur eða stúlka, eða hvort þau haldi bara áfram að vera intersex, sem er algjörlega líka valkostur.

Umboðsmenn barna á Norðurlöndunum hafa verið eindregnir stuðningsmenn þess, m.a. umboðsmaður barna á Íslandi, að við setjum þetta í lög hér á Íslandi. Var þar einmitt vitnað í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Það ýtir aftur undir hvað mannréttindavinkillinn er mikilvægur í þessu, því þetta eru óafturkræfar aðgerðir. Þess vegna endum við í rauninni alltaf þar. Við erum hins vegar „bombarderuð“ kannski, skulum hafa það innan gæsalappa því að það er erlent orð sem má ekki nota í ræðustól Alþingis, við erum kannski svolítið þrúguð af mikilli umræðu erlendis frá og alls staðar um að við séum að ganga á rétt barnanna og rétt trúarbragða o.s.frv., en það er bara ekki þannig. Við á Íslandi lögðum niður líkamlegar refsingar fyrir löngu, það eru áreiðanlega lögfróðir menn í salnum sem geta sagt mér hvað er langt síðan við gerðum það. Það er mjög langt síðan, ætli það hafi ekki verið fyrir einhverjum 100 árum eða meira. Við erum ekki stödd þar sem samfélag að ætla að ganga þessa leið.

Ég held að við eigum að skoða þetta mál af fullri alvöru. Ég geri ráð fyrir að þetta verði rætt af fullri alvöru í nefnd þingsins. Það kann vel að vera að það komi upp vinklar sem flutningsmenn sáu ekki fyrir. Við ræddum í undirbúningi þessa frumvarps um ýmsa slíka vinkla, en þetta varð niðurstaðan. Ég er ekki fráhverfur því á nokkurn hátt að ræða það í nefndinni hvort það geti orðið breytingar á lagagreininni, en prinsippið, réttindi barna, mannréttindi barna, verður alltaf að vera sterkast.