148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[17:25]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gott að geta glatt hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson. Það er alveg rétt sem fram kom í máli hans, auðvitað eru atriði úr sögu þessarar þjóðar og jafnvel fortíð trúarbragða okkar sem við erum ekki sérlega stolt af. Þegar ég tala um okkar trúarbrögð á ég við þjóðkirkjuna, sem reyndar er ágreiningur um hvort eigi að vera þjóðkirkja. Það er nú annað mál. En við höfum engu að síður sem samfélag borið gæfu í gegnum tíðina til að endurskoða afstöðu okkar, endurskoða kreddufullu hugmyndirnar sem við kunnum að hafa haft um eitthvað áður, í ljósi nýrrar þekkingar og í ljósi nýrra viðhorfa í samfélaginu.

Það er ansi hætt við því að lítið yrði úr framþróun í samfélaginu ef við gerðum það aldrei, að við endurskoðuðum aldrei hug okkar, við skoðuðum aldrei frasann „bíddu, nei, við höfum alltaf gert þetta svona.“ Frasinn „við höfum alltaf gert hlutina svona“ er í sjálfu sér stórhættulegur vegna þess að hann setur í rauninni eða getur sett bremsu á allar framfarir.

En ég held samt í rauninni að það sem þingmaðurinn var að ýta til okkar flutningsmanna, og ég tek það algjörlega til mín, var að sýna þeim líka nærgætni sem hafa aðrar skoðanir og hafa uppi aðrar hugmyndir en við. Ég skal vera fyrstur manna til þess að taka undir það með hv. þingmanni.