148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[17:27]
Horfa

Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmönnum fyrir afar málefnalega og fróðlega umræðu í dag. Mér heyrist á öllu að þingmenn leggi fyrst og fremst áherslu á mannréttindi. Við erum flest orðin sammála um það, held ég, eins og ég skildi ræðurnar, að bann við umskurði myndi ekki brjóta í bága við trúfrelsi manna.

Við höfum mörg velt hér upp í dag bestu mögulegu útfærslunni. Hvort frumvarpið eins og það er lagt fram þjóni tilgangi sínum, hvort mögulega eigi að setja slíkt bann inn í önnur lög. Svo höfum við rætt viðurlög við broti á lögunum og annað slíkt, þannig að við leggjum mikið traust á hv. allsherjar- og menntamálanefnd, sem ég geri ráð fyrir að fái málið til meðferðar. Fyrir nefndina munu koma gestir og umsagnir munu koma til yfirferðar í nefndinni sem varpa kannski skýrara ljósi á lagatæknileg atriði, vegna þess að þetta er flókið mál og þar er að mörgu að huga.

En mig langar að lokum að lesa hér upp úr grein sem ég rakst á, sem birtist á Vísi í dag, eftir barnaskurðlækninn Þráin Rósmundsson. Hann hefur rannsakað þetta mál og er einn meðhöfunda stórrar greinar sem birtist í tímaritinu Pediatrics, þ.e. barnalæknar, árið 2013, og er mjög þekkt grein. Sú grein gekk út á að hrekja þau rök sem áður hefur verið haldið fram um að umskurður á drengjum væri heilsufarslega góður, að honum fylgdu kostir. Í þessari frægu grein hrekja 38 læknar kosti umskurðar á drengjum með læknisfræðilegum rökum og er Þráinn einn af meðhöfundum þar, eins og ég sagði áðan. Í greininni rekur hann sögu þessa máls og sem skýrir þá líka af hverju við þingmenn leggjum fram þetta mál nú.

Mig langar að lesa upp úr greininni, með leyfi forseta:

„Á árinu 2013 hafði ungur maður samband við umboðsmann barna hér á landi og krafðist svara um hvort forráðamaður barns gæti ákveðið, án samráðs við þolanda, að láta fjarlægja heilbrigðan líkamshluta skjólstæðings síns, eins og t.d. forhúðina. Í framhaldi af þessu hófst umræða og síðan samstarf milli umboðsmanna barna á Norðurlöndum. Hinn 30. september 2013 kom út sameiginleg yfirlýsing, undirrituð af umboðsmönnum barna allra Norðurlandanna, ásamt leiðandi barnalæknum, barnaskurðlæknum og barnahjúkrunarfræðingum þessara landa.

Í yfirlýsingunni kemur fram að umskurður án læknisfræðilegrar ástæðu á einstaklingi sem ekki getur sjálfur gefið samþykki fyrir aðgerðinni brjóti í grundvallaratriðum gegn mannréttindum hans, sérstaklega þar sem slík aðgerð er óafturkræf, sársaukafull og getur haft í för með sér alvarlegar aukaverkanir. Vísað er í 12. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem öll Norðurlöndin eru aðilar að, og jafnframt til 24. gr. sem fjallar um að vernda skuli börn gegn trúarlegum- og hefðbundnum siðum sem skaðað geti heilsu þeirra. Í yfirlýsingunni kemur einnig fram að vernda beri hagsmuni barnsins, sem alltaf hljóti að standa framar rétti foreldranna til að framkvæma trúarlegar eða hefðbundnar aðgerðir á börnum sínum. Sú sjálfsagða krafa er sett fram að börn (drengir) þurfi ekki að gangast undir neinar aðgerðir, eins og t.d. umskurð, sem samræmist trú foreldranna fyrr en þeir sjálfir eru til þess bærir lagalega að ákveða það.“

Þráinn heldur áfram:

„Umskurður er ævaforn aðgerð þar sem forhúðin í heild er fjarlægð. Það er ekki svo að fjarlægður sé aðeins fremsti hluti forhúðarinnar, eins og komið hefur fram í umræðunni undanfarið. Forhúðin hefur það hlutverk að vernda reðurhöfuðið. Líffræðilegar rannsóknir á forhúðinni hafa sýnt að þéttni taugaenda (receptora) í forhúðinni er mun meiri en í sjálfu reðurhöfðinu. Þá hefur forhúðin hlutverki að gegna í ónæmiskerfinu. Til eru heimildir frá forn-Egyptum sem framkvæmdu umskurði líklegast vegna sýkinga undir forhúðinni. Þessar heimildir eru mun eldri en Abraham, sem er samkvæmt Biblíunni upphafsmaður umskurðar hjá gyðingum (1800 f. Kr.). Eldri sonur Abrahams, Ismail, er talinn ættfaðir araba, en með honum er þessi siður talinn hafa borist til araba, síðar múslima. Ekki er getið um umskurði í trúarriti múslima, Kóraninum. Páll postuli taldi umskurð ónauðsynlegan. Þess vegna er umskurður ekki trúarlegt atriði í kristni.

Seinni tíma skýringar á tilurð þessarar aðgerðar eru að þessar þjóðir lifðu á eyðimerkursvæði. Fáklæddir drengir að leik fengu auðveldlega t.d. sandkorn undir forhúðina sem olli sýkingu þar. Engin sýklalyf voru til og varla hreint vatn. Menn neyddust því til að losa um forhúðina með skurði til að hreinsa sýkinguna. Smám saman þróaðist þetta yfir í að forhúðin var fjarlægð í heild og smám saman var farið að gera aðgerðina í fyrirbyggjandi tilgangi. Engar svæfingar eða deyfingar voru til þannig að auðveldast var að gera þetta á börnunum sem allra minnstum t.d. 8 daga gömlum (hjá gyðingum)“ — þannig að skortur var á deyfingarlyfjum — „eða nokkurra ára (hjá múslimum). Þaggað var niður í mótmælum mæðranna með því að setja þetta inn í trúarbrögðin sem öllu réðu.

Á Vesturlöndum var umskurður sjaldgæfur fram undir 1870. Þá komu fram kenningar í Bandaríkjunum um mikinn heilsufarslegan ávinning af umskurði. Aðgerðin átti að lækna undirmigu, flogaveiki, geðveiki af ýmsu tagi, getuleysi og hindra sjálfsfróun,“ — sem er náttúrulega mjög syndsamleg — „svo eitthvað sé nefnt. Þó svo að ekkert af þessu stæðist náði þessi siður mikilli útbreiðslu þarlendis. Í Bandaríkjunum eru 50–70% karlmanna umskorin en undir 10% í Evrópu. Í öllum vestrænum ríkjum, þar með talið Bandaríkjunum, hefur tíðni umskurðar farið lækkandi síðustu áratugina.

Aðferð þeirra sem berjast fyrir umskurði hefur að mestu snúist um að reyna að finna læknisfræðilegar ástæður fyrir aðgerðinni. Árið 2012 kom út grein frá bandaríska barnalæknafélaginu þar sem fullyrt var að svo mikill heilsufarslegur ávinningur væri af umskurði nýfæddra drengja að greiða ætti fyrir aðgerðina af skattfé (umskurður er algengasta aðgerð sem gerð er í Bandaríkjunum).“ — Sem sagt í dag. — „Þessum fullyrðingum var svarað í grein 40 vestur-evrópskra lækna 2013“ — sem sagt þeirra 38 lækna sem ég nefndi áðan, en Þráinn er einn þeirra sem ritar greinina sem ég les nú upp úr — „þar sem öll rök um heilsufarslegan ávinning voru hrakin. Að auki var bent á að aukakvillar sem fylgt geta aðgerðinni, jafnvel þó að hún sé gerð við bestu aðstæður,“ — takið eftir þessu: jafnvel þó að hún sé gerð við bestu aðstæður — „væru umtalsverðir (2–7%). Aukakvillarnir geta verið blæðingar, sýkingar, örmyndun á aðgerðarsvæðinu og þrenging á þvagrásaropi.

Þá hefur því verið lýst að hluti reðurhöfuðs sé fjarlægt og að of mikil húð sé tekin sem leitt getur til verkjavandamála síðar t.d. við kynmök.“

Ég ætla aðeins og skjóta inn í að ég hef fengið fjölmörg bréf og fleiri þingmenn frá bæði umskornum karlmönnum sem hafa átt við ýmis vandamál að etja þess vegna, bæði andleg og líkamleg, og einnig frá eiginkonum þessara manna sem lýst hafa sársauka eftir kynmök vegna þessa. Komið hefur fram að það eru fjölmargir taugaendar í forhúðinni, hún hefur ákveðinn tilgang, það er bara staðreynd. Það því rangt að segja að umskurður á drengjum hafi ekki áhrif á kynnautn karlmanna. Verið er að taka ákveðinn hlut í burt sem ekki er hægt að endurheimta. Það er sjálfsagt að menn láti umskera sig þegar þeir hafa aldur til, en að það sé ekki gert við börn, nokkurra daga gömul eða nokkurra ára gömul.

En áfram heldur greinin:

„Í vísindagrein frá Bandaríkjunum frá 2010 kemur fram að yfir 100 drengir deyja árlega eftir umskurði, jafnvel þó að aðgerðin hafi verið gerð við bestu aðstæður. Dánarorsök er oftast blæðing eða sýking. Þá er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir sálarkvöl umskorinna drengja sem alast upp í samfélagi óumskorinna. Að lokum skal bent á að stór hluti umskurða í trúarlegum tilgangi er gerður án deyfingar eða svæfingar.“ — Aðalástæða þess er að börnin eru of lítil og þola illa svæfingu. — „Óþarft ætti að vera að taka fram að aðgerðin er ákaflega sársaukafull“ — já, með alla þessa taugaenda segir það sig svolítið sjálft, er það ekki? — „og allt tal um að börn nokkurra daga gömul finni ekki til er tómur uppspuni.“

Börn finna til. Nýlegar rannsóknir sýna að þessi litlu börn fá jafnvel áfallastreituröskun, tengslamyndun við móður verður erfiðari, eins brjóstagjöf. Barn þjást oft og tíðum og er mun lengur að jafna sig þannig að þetta er alvarlegt mál. (Gripið fram í.)

Áfram skal haldið:

„Þær líflegu umræður sem lagafrumvarpið hefur vakið í fjölmiðlum og á netinu eru til merkis um að landsmönnum er ekki sama um hvernig farið er með ungbörn í landinu. Það að stór hluti læknastéttarinnar og annarra heilbrigðisstétta skrifar undir stuðningsyfirlýsingu við frumvarpið, jafnvel þó að undirskriftasöfnunin sé einungis á fésbókinni, sýnir glögglega hug þessa fólks til málsins. Þá má geta þess að hafin er undirskriftasöfnun meðal almennings í Danmörku um að banna umskurði drengja undir 18 ára aldri, en þá geti einstaklingurinn ákveðið sjálfur hvað hann vill. Mestur virðist ágreiningurinn vera um refsirammann, en 6 ára fangelsisvist er langur tími. Hörðum mótmælum erlendis frá var við að búast. Það hefur jafnan gerst ef hreyft hefur verið við þessu máli.“

Það er akkúrat það. Þetta mál hefur auðvitað verið rætt annars staðar en á Íslandi og alltaf hefur það sama gerst. Umræðan hefur farið að snúast um fyrst og fremst um trúfrelsi en minna um réttindi barnsins. Það er hlutverk okkar sem löggjafa að bregðast við þegar okkur berast ábendingar, þegar okkur berast ábendingar frá aðilum sem starfa við vernd barna og við að tryggja hagsmuni barna, eins og umboðsmenn barna á Norðurlöndum og Barnaheill. Ef slíkir aðilar benda okkur á að gerðar séu aðgerðir á börnum sem brjóta mannréttindi þeirra þá verðum við sem löggjafi að kafa vandlega í málið. Það er bara úrlausnarefni. Við erum sammála um það, ég held að við getum öll sagt það, við hljótum að vera öll sammála um að ekki eigi að gera ónauðsynlegar aðgerðir á börnum sem eru óafturkræfar, valda þeim sársauka, geta mögulega skaðað þau og jafnvel leitt til dauða.

Vinnan sem fram undan er er að finna réttu leiðina til að tryggja að réttindi barna og vernd séu í heiðri höfð. Við hljótum að geta gert það í sameiningu, fundið út úr þessum lagatæknilegu atriðum, hvernig best sé að koma slíku fyrir, hver refsingin eigi að vera. Á að vera refsing eða eiga að vera sektarákvæði? Á að vera fangelsisdómur? Hversu langur þá?

Eins og fram kemur grein Þráins — vegna þess að sumir hafa sagt að við ættum ef til vill að búa til einhverjar reglur um að þetta verði einungis leyfilegt á sjúkrastofnunum. En Landspítalinn og læknar þar hafa nú gefið það út að slíkar aðgerðir séu ekki gerðar á Landspítalanum. Hins vegar sýna nýjar tölur það sem ég hef frá landlækni að slíkar aðgerðir eru gerðar hjá sérfræðingum úti í bæ. Þeim hefur farið fjölgandi núna síðustu árin. Lýtalæknar neita að gefa landlækni upplýsingar um hvaða aðgerðir þeir gera og hversu margar. Einnig kom fram í svari landlæknis að ekki væri búið að yfirfara gæðaeftirlit með skráningum hjá sérfræðingum. Þannig að við erum ekki með mjög mikið í höndunum.

Við sjáum samt að þetta eru ekki margar aðgerðir. Þetta eru samt á þriðja tug aðgerða núna síðustu ár og þeim fer fjölgandi. Er það nóg að binda þetta mögulega við skurðstofur hjá sérfræðingum? Samkvæmt grein Þráins Rósmundssonar barnaskurðlæknis er það ekki nóg. Þó að aðgerðir séu gerðar við bestu mögulegar aðstæður eru þær samt sem áður mjög hættulegar. Þarna erum við að tala um 2–7% dánarhlutfall vegna þessara aðgerða, þrátt fyrir bestu mögulegu aðstæður, bendir læknirinn á, og alls kyns aukakvilla. Þannig að við verðum bara að skoða þetta mjög vel og vandlega.

Ég heyri það í dag að hugur þingmanna stendur til þess og fólki þykir málið áhugavert. Það er svolítið nýtt fyrir okkur og við þurfum að fara vel yfir það. Umræðan getur tekið tíma og það er mikilvægt að við vöndum okkur. Það er að mörgu að huga og þetta tengist einmitt umræðu um intersex og fleira sem við þurfum einnig að ræða hér.

Ég þakka fyrir gott hljóð og virkilega góða umræðu. Að lokum legg ég til að málinu verði vísað til allsherjar- og menntamálanefndar til frekari úrvinnslu.