148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

heilbrigðisþjónusta.

178. mál
[17:43]
Horfa

Flm. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Herra forseti. Það mál sem ég mæli hér fyrir á sér nokkra forsögu, en frumvarpið er um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, og lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum.

Meðflutningsmenn mínir á frumvarpinu eru allmargir, það eru hv. þingmenn Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Andrés Ingi Jónsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Ásmundur Friðriksson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Halldóra Mogensen, Hanna Katrín Friðriksson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Inga Sæland, Líneik Anna Sævarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Vilhjálmur Árnason, Willum Þór Þórsson og Þorsteinn Víglundsson.

Eins og ég kom inn á á þetta mál nokkra forsögu. Sá sem hér stendur flutti á 139. löggjafarþingi mál um einbýli á öldrunarstofnunum sem á þeim tíma hafði í rauninni ekki verið flutt áður í þeirri mynd þótt málið hafi oft borið á góma í þingsal. Menn höfðu rætt þetta lítillega í þingsal og miðað við þær umræður sem höfðu farið fram hafði þingheimur verið nokkuð samhljóða í því að þetta væri sjálfsagt réttindamál og að því yrði að vinda bráðan bug. Engu að síður hefur málið í rauninni aldrei komið til framkvæmda í lagatexta.

Með árunum hefur fjölbýlum á hjúkrunarheimilum fækkað, en á hinn bóginn erum við enn þá með, eins og fram kemur í greinargerð frumvarpsins, tæplega 500 rými sem eru tvíbýli eða þríbýli og því erum við með rými fyrir tæplega 500 einstaklinga sem njóta ekki þeirra mannréttinda að búa með þeim sem þeir kannski sjálfir veldu.

Reiknað var út fyrir einu eða tveimur árum hvað það myndi kosta að takast á við þessa breytingu. Kostnaðurinn sem felst í frumvarpinu gæti legið einhvers staðar á bilinu 5–7 milljarðar, dreift yfir þann tíma sem tillögugreinarnar gera ráð fyrir, en við megum ekki gleyma því að Framkvæmdasjóður aldraðra myndi hæglega ráða við það verkefni miðað við þá peninga eða fjármuni sem hann hefur í dag og miðað við þá fjármuni sem hafa runnið til sjóðsins í gegnum tíðina.

Til öryggis má segja að bráðabirgðaákvæði er í lok frumvarpsins um að ráðherra skuli setja áætlun til fimm ára til að klára þetta dæmi, þannig að auðvelt sé fyrir samfélagið að takast á við verkefnið og bjóða fólki upp á þessi sjálfsögðu mannréttindi.

Ég hef heyrt í umræðunni að þetta sé kannski óþarfi vegna þess að sumir vilji hreinlega búa með einhverjum öðrum á hjúkrunarheimilum. Það kann að vera rétt. En í mínu fyrra starfi man ég vissulega eftir einu og einu tilfelli þar sem menn vildu endilega búa með einhverjum óskyldum aðila í herbergi á hjúkrunarheimili, en slík tilfelli eru sárafá.

Einn góður maður sagði við mig á sínum tíma þegar ég var að undirbúa flutning þessa frumvarps fyrst, að þegar við byggðum hjúkrunarheimili ætti hugsunarháttur okkar í rauninni alltaf að vera sá að við værum ekki að byggja hjúkrunarheimili fyrir afa okkar og ömmu, heldur værum við að byggja hjúkrunarheimili fyrir barnabörnin. Við ættum að reyna þess vegna, þegar við hönnum og byggjum hjúkrunarheimili, að setja okkur í þau spor sem kannski kynnu að vera eðlileg eftir 20, 30, 40 ár eða svo. Ég held að mikið sé til í þessu.

Hinn helmingurinn af frumvarpinu snýr að þeim réttindum sem hafa oft komið upp í umræðum á allra síðustu árum, að maki eða sambúðarmaki fái tækifæri til þess að búa hjá lífsförunaut sínum á hjúkrunarheimili, jafnvel þótt viðkomandi sé ekki með það sem við köllum færni- og heilsumat. Þetta er aðeins flóknara mál í raun vegna þess að löggjöfin og reglurnar sem við höfum í dag um færni- og heilsumat eru býsna skýrar, vegna þess að enginn má eiga heima á hjúkrunarheimili nema hann eða hún hafi gengið í gegnum þetta svokallaða færni- og heilsumat. Því er frumvarpstextinn, eins og fram kemur í 3. gr., tiltölulega flókinn og að því leyti flóknari en í frumvarpi hæstv. núverandi heilbrigðisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, sem var flutt á 145. löggjafarþingi. En sá sem hér stendur sendi einmitt umsögn um það frumvarp þar sem ég benti á að taka þyrfti á þessum málum til að þannig væri búið um þessa einstaklinga að hugað yrði að öllum réttindum, ekki bara þeirra sem búa á hjúkrunarheimilum með færni- og heilsumat, heldur líka þeirra sem flytja þangað og með hvaða hætti þeir kynnu að eiga rétt til að njóta þjónustu o.s.frv.

Því er 3. frumvarpsgreinin allítarleg. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa hana. Hún er svohljóðandi:

„Heimilismaður sem dvelur til langframa á stofnun fyrir aldraða skal eiga kost á að vera samvistum við maka eða sambúðarmaka sinn þar þegar aðstæður leyfa. Maki skal greiða sanngjarna leigu vegna veru sinnar og greiða þann kostnað sem af dvöl hans hlýst. Maki skal eftir atvikum hafa aðgang að þjónustu stofnunarinnar gegn gjaldi. Maki samkvæmt þessum tölulið er undanþeginn“ — takið eftir, hv. þingmenn — „færni- og heilsumati og skal eiga lögheimili utan stofnunarinnar.“ — Þetta er býsna mikilvægt. — „Maki eða sambúðarmaki getur dvalið á öldrunarstofnuninni í allt að átta vikur eftir fráfall heimilismanns. Á þeim tíma skal meta hvort forsendur eru fyrir áframhaldandi dvöl á stofnuninni og fellur dvalarréttur niður nema niðurstaða færni- og heilsumats skv. 15. gr. laganna verði að forsendur séu fyrir áframhaldandi búsetu og öðlast þá viðkomandi sjálfstæðan rétt sem heimilismaður á stofnun fyrir aldraða.

Ráðherra setur reglugerð um dvöl maka og sambúðarmaka á öldrunarstofnunum þar sem m.a. skal tilgreina greiðslur, greiðslufyrirkomulag, réttindi, tryggingar og kostnaðarþátttöku ríkisins.“

Þetta er býsna ítarlegt, en það er það ekki fyrir neina tilviljun. Það er nefnilega þannig að ekki er víst að hægt verði að skilgreina þetta sem fortakslausan rétt. Tökum til að mynda hjúkrunarheimili þar sem aðstæður eru hreinlega þannig eða samsetning heimilismanna er þannig að það muni hreinlega ekki vera hægt að koma þessu við, ekki væri hægt að hafa þetta eins og við segjum algjörlega fortakslaust. En með því að setja það inn í lagatextann að þetta megi gera þegar við á, þá búum við í rauninni til réttindi fyrir fólk, a.m.k. að sækja um þessa stöðu, og í flestum tilfellum, ef ég þekki rétt til, myndi vera reynt að koma til móts við þetta. Hins vegar er það svo að sums staðar eru einbýli á hjúkrunarheimilum það þröng og það lítil að erfitt væri fyrir sambúðarmaka að komast þar fyrir hreinlega vegna plássleysis. Því miður eru nokkur hjúkrunarheimili þannig á Íslandi í dag að einbýli eru alveg niður undir 10 fermetra og jafnvel í einhverjum algerum undantekningartilvikum eitthvað minni en það. Það er því ekki alltaf hægt að koma þessu við.

Síðan eru líka aðstæður þar sem um er að ræða litlar lokaðar einingar, þá getur þetta líka verið erfitt, ekki kannski vegna þess að menn megi ekki velja það að flytja inn á lokaða deild til maka síns, heldur vegna þess að það er kannski erfitt að setja þá skyldu á sambúðarmaka á stofnun að hann eða hún eigi að passa upp á velferð hinna heimilismannanna sem eru á lokuðu deildinni af einhverri ástæðu. Það þarf því að taka tillit til allra þessara sjónarmiða.

Síðan varðandi það þegar makinn fellur frá, þá er mjög mikilvægt að sambúðarmakinn eigi annað lögheimili, ekki sé búið að fyrirgera því til að tryggja það að hann hafi þá að einhverju að hverfa, en jafnframt að hann fái þann umþóttunartíma sem sanngjarnt er. Í dag miðum við við það að hvíldarinnlagnir á öldrunarstofnunum séu allt að átta vikur á ári, því er sett inn klásúla um að það séu allt að átta vikur sem geti verið þessi umþóttunartími.

Flestar færni- og heilsufarsnefndir landsins funda nægilega þétt til að það myndi rammast innan þessa tímaramma, þ.e. að taka ákvörðun um hvort viðkomandi ætti orðið sjálfstæðan rétt til að búa á heimilinu eða ekki.

Ég hef áður velt upp og haft um það vangaveltur, og á raunar inni fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra um það með hvaða hætti gert er mat á kostnaði við búsetu á hjúkrunarheimilum, og svo við tölum mannamál, um hinn hráa búsetuþátt, ef við getum sagt sem svo. Þess vegna er mikilvægt að reyna að skilgreina hvað kostar í raun að gista eða búa á hjúkrunarheimili ef menn velja það fyrirkomulag og hvað kostar að framfleyta einhverjum sem býr á hjúkrunarheimili. Það kann að vera að í einhverjum tilfellum yrði sá kostnaður metinn tiltölulega hár. Þess vegna er þessi reglugerðarheimild fyrir ráðherra.

Í dag erum við með reglugerð sem segir að þátttaka í dvalarkostnaði geti verið allt að 400 þús. kr. á mánuði. Ég myndi halda að það væri algjörlega í efri mörkum. Ég myndi ætla að þetta yrði eitthvað minna. En ráðuneytið fær þá það verkefni að meta það og ákveða.

Ég hef fengið svolítil viðbrögð við því þegar ég lagði frumvarpið fram og hafa menn spurt mig hvort mér væri alvara með alla þá biðlista sem eru í landinu að gera ráð fyrir því að fullfrískt fólk færi inn á hjúkrunarheimili. Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt að menn hafi áhyggjur af því. Hins vegar er það ekki vilji flutningsmanna frumvarpsins að þeir sem kæmu sem sambúðarmakar inn á hjúkrunarheimili tækju upp önnur pláss, heldur er að jafnaði gert ráð fyrir að þeir myndu dvelja í herbergjum eða híbýlum maka síns og þannig ekki taka upp pláss frá neinum öðrum. Vissulega kynnu þeir að þurfa pláss við matarborðið eða hádegisverðarborðið eða hvernig sem það er, en ég held að í flestum tilfellum ætti að vera auðvelt að leysa það.

Menn hafa líka spurt mig: Mun þetta ekki bara verða það sem allir biðja um? En sem öldrunarlæknir og hafandi verið vinnandi í þeim bransa og í því fagi í allmörg ár, þá er alla vega í mínu tilfelli teljandi á fingrum beggja handa þau tilvik síðastliðin 20 ár þar sem það hefur yfirleitt verið í umræðunni. Vegna þess að það er auðvitað skilningur okkar allra og ég held langflestra sem búa á Íslandi og miðað við það almannaheilbrigðiskerfi sem við búum við erum við almennt séð ekki að leggja til að heilbrigt fólk leggist inn á sjúkrastofnanir, enda er það ekki andi frumvarpsins. Langflestir átta sig á því þegar maki hefur tapað heilsu sinni og þarf á þeirri þjónustu að halda að vera á hjúkrunarheimili, er svo lasinn eða þannig staddur heilsufarslega séð og aðstaða hans svo miklu öðruvísi en sambúðarmakans, að ekki sé ástæða fyrir heilbrigðan sambúðarmaka að flytja með honum á heimilið. En það koma upp svona tilvik. Frumvarpið er tilraun til að svara þeim áhyggjum sem koma upp í samfélaginu vegna þess.

Ég geri ráð fyrir að frumvarpið gangi eftir þessa umræðu til hv. velferðarnefndar og ég hlakka til umræðunnar þar og vona að málið fái framgang á þessu þingi, eða því næsta ef til kemur.