148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

heilbrigðisþjónusta.

178. mál
[17:58]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og þetta mjög svo áhugaverða og góða frumvarp. Ræðan hans var reyndar það ítarleg að svör við þeim spurningum sem höfðu vaknað hjá mér fyrr, þegar ég óskaði eftir andsvari, komu að einhverju leyti fram í seinni hluta ræðunnar. Það var kannski varðandi það hvernig þau mál væru leyst með maka þegar annar fellur frá og báðir búa á hjúkrunarheimili. Það er svo auðvelt að taka undir þau sjálfsögðu mannréttindi að fólk fái að búa saman þrátt fyrir að annar aðili þurfi á hjúkrunaraðstoð að halda. Einhverra hluta vegna hefur þetta mál verið lengi í umræðunni en enn sem komið er hefur okkur ekki tekist að framkvæma þetta, að því er ég best veit.

Í ljósi þess að ég veit að hv. þingmaður er mjög fróður um þennan málaflokk þá langaði mig að vita hvort hann þekki til þess hvernig staðan er á þessum málum einhvers staðar erlendis. Erum við með fordæmi þar sem þetta hefur virkað? Eða hafa kannski mögulega verið veittar einhverjar undanþágur hér heima þannig að þetta hafi gengið upp? Ef svo er, hver er þá reynslan af því?