148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

heilbrigðisþjónusta.

178. mál
[18:00]
Horfa

Flm. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur andsvarið. Já, ég þekki dæmi þess hér innan lands. Það eru nokkur tilvik þar sem hjúkrunarheimili hafa hreinlega ákveðið að leysa svona mál ein og sjálf, þá hreinlega boðið maka að vera að forminu til í leiguhúsnæði hjá sér. En það er í raun engin lagaumgjörð til um það. Þetta eru hins vegar örfá dæmi. Í fljótu bragði man ég eftir tveimur hér á Íslandi, þau kunna að vera fleiri.

Ég þekki ekki löggjöf hvað þetta varðar erlendis frá, en ég veit til að mynda að í löndum þar sem ekki er almannaheilbrigðiskerfi þar er þetta praktíserað í einhverjum mæli. Reynslan er hins vegar sú, sú sama og hérna á Íslandi, að ekki er mikið verið að biðja um þetta. Það er ekki þannig að menn séu að fara fram á að fá að flytja inn á sjúkrastofnun jafnvel þó að maki þeirra sé lasinn. Það er ósköp skiljanlegt vegna þeirra ástæðna sem ég rakti hér áðan. Menn skilja það alveg að ef einstaklingur er veikur gæti hann þurft að sækja mikla heilbrigðisþjónustu jafnvel svo að hann þurfi að búa á sjúkrastofnun, það á ekkert endilega við þann sem ekki er veikur.