148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

kjör öryrkja.

[15:03]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Eins og við vitum öll fóru fjárlög fyrir árið 2018 á ljóshraða í gegnum þingið í desember sl. Þar var í engu gert ráð fyrir því að bæta hag öryrkja eða þeirra sem höllustum fæti standa í þessu samfélagi. Þá er ég að tala um að bæta hag þeirra beint, ekki óbeint, ekki í formi þess að veita þeim afslátt hér eða hvar eða aðgengi að einu eða öðru. Ég er að tala um framfærslu. Ég er að tala um möguleika á því að ná endum saman. Ég er að tala um fæði, klæði, húsnæði fyrir alla. Ég er að tala mat á diskinn.

Hæstv. forsætisráðherra var í stjórnarandstöðu í fyrrahaust. Við vitum nú hvernig stöðugleikinn hefur verið í þessu húsi hvað pólitíkina varðar og vonum náttúrlega að hann fari að verða styrkari hér eftir. Staðreyndin er sú að þá talaði hæstv. forsætisráðherra um að öryrkjar gætu ekki beðið lengur eftir því að fá aðstoð, eftir því að fá bættan hag. Þess vegna liggur beinast við að ég spyrji hæstv. forsætisráðherra, því að undir hennar stjórn er ekkert verið að gera til að bæta hag öryrkja:

Hvenær skipti hæstv. forsætisráðherra um skoðun? Er hún búin að skipta um skoðun? Eða hvað er um að vera? Er ekkert að marka það sem sett er á borðið hér, úr þessum hv. ræðustóli Alþingis? Hvað er ríkisstjórnin að gera fyrir öryrkja?